Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Góður gangur áfram þó það hægist á uppsveiflu
Fjölmenni var á efnahagsfundi Íslandsbanka í Hljómahöll. VF-mynd/pket.
Þriðjudagur 14. nóvember 2017 kl. 16:44

Góður gangur áfram þó það hægist á uppsveiflu

-Vel sóttur efnahagsfundur Íslandsbanka í Hljómahöll

Hápunkti hagsveiflunnar hér á landi er náð en sérfræðingar Íslandsbanka telja að þrátt fyrir það verði hagvöxtur nokkuð myndarlegur áfram þó hann verði minni. Þá stefni fátt í annað en að krónan verði á svipuðu róli á næstunni. Þetta kom fram á efnahagsfundi sem Íslandsbanki hélt í Hljómahöllinni í síðustu viku.

Keflvíkingurinn Una Steinsdóttir, framkvæmdakvæmdastjóri hjá Íslandsbanka og Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur bankans opnuðu fundinn með fróðleik um stöðu efnahagsmála um þessar mundir auk þess að rýna inn í framtíðina. Þar kom fram að 2017 verður metár í ferðaþjónustunni sem drifið hefur hagkerfið hér á landi áfram af miklum myndarbrag. Eitthvað hægir á ferðamannasókninni sem mun þó vaxa áfram. Ferðaþjónustan mun að mati Íslandsbanka skila 45% allra gjaldeyristekna á þessu ári. Til samanburðar verða sjávarútvegur og áliðnaður með 31% samanlagt.

Íbúðafjárfesting hefur vaxið hratt að undanförnu í takti við aukinn kaupmátt heimilanna og mun vaxa að meðaltali um 20% næstu þrjú árin. Þá hefur einkaneysluvöxtur náð nýjum hæðum en einkaneysla jókst um 7% á síðasta ári sem er það mesta síðan árið 2005 og spáð er 8% aukningu á þessu ári en minni vexti næstu tvö ár, 2018 og 2019. Gengi krónunnar verður áfram hátt að sögn spekinga Íslandsbanka og verðbólga svipuð. Sem sagt, ágætis hljóð í fjármálasérfræðingum bankans fyrir næstu þrjú ár en þeir svöruðu spurningum fundarmanna sem fjölmenntu.

Auk Íslandsbankafólksins flutti Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar stutta tölu um fyrirtækið en það var stofnað af föður hans, Axel Jónssyni fyrir áratug. Skólamatur framleiðir nú um ellefu þúsund matarskammta á dag sem fara til skóla og leikskóla á Suðurnesjum, Garðabæ, Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Jón sýndi á fundinum dæmi úr rekstrinum sem vöktu athygli. Fyrirtækið leggur áherslu á að vinna skólamatinn frá grunni eftir einföldum uppskriftum og úr gæða hráefni. Rúmlega hundrað manns vinna hjá fyrirtækinu í framleiðslueldhúsi við Iðavelli og í mötuneytum á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jón Axelsson fór yfir stöðu mála hjá Skólamat en þar starfa nú yfir 100 manns.