Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Góður atvinnumálafundur í Garði - Norðurálsmenn tilbúnir að fara á fullt með framkvæmdir
Föstudagur 5. mars 2010 kl. 10:03

Góður atvinnumálafundur í Garði - Norðurálsmenn tilbúnir að fara á fullt með framkvæmdir

Forsvarsmenn Norðuráls segjast tilbúnir að fara á fullt með framkvæmdir við álverið í Helguvík. Það gæti þess vegna gerst eftir einn mánuð. Nú sé aðeins beðið eftir því að orkufyrirtækin ljúki sinni fjármögnun. Þetta kom fram á fjölmennum atvinnumálafundi sem haldinn var í Gerðaskóla í Garði í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Ég er afar ánægður með þennan fund,“ sagði Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði í samtali við Víkurfréttir eftir fundinn. „Ég er sáttur við mætinguna og framsögumenn voru beittir og einarðir. Það komu góð skilaboð hingað og ég var sérstaklega ánægður með skilaboð Ágústar Hafberg frá Norðuráli. Þeir eru klárir í slaginn og jafnvel tilbúnir eftir mánuð ef því er að skipta og mér fannst það vera stóra fréttin af þessum fundi. Einnig fannst mér iðnaðarráðherra vera jákvæður fyrir þessum verkefnum okkar og það er ljóst að hún er ekki að þvælast fyrir þessu og ekki ríkisstjórnin, eins og hér kom fram. Nú held ég að við þurfum bara að bretta upp ermar, standa saman og klára þessi mál“.


- Þannig að þú ert bjartsýnni eftir þennan fund?
„Já, ég verð bara að viðurkenna það að ég er bara töluvert bjartsýnni, vegna þess að það var farið að læðast að manni að það væru erfiðari tímar framundan. Það eru blikur á lofti hjá mörgum núna. Það eru mörg minni fyrirtæki, sem hafa verið að halda í sína starfsmenn, sem eru að gugna núna og eru í þeim farvegi að segja upp störfum og það er afar mikilvægt að það gerist ekki núna.Við höfum ekki efni á því núna“.


Nánar um fundinn hér á vef Víkurfrétta á eftir.

Efri myndin: Þétt setinn salurinn í Gerðaskóla í Garði.


Neðri myndin: Ágúst Hafberg frá Norðuráli kom með góðar fréttir á fundinn, að mati bæjarstjóra Sveitarfélagsins Garðs.

Víkurfréttamyndir: Páll Ketilsson