Góður árangur nemenda í Reykjanesbæ í lestri
Ár hvert er lögð Læsis-skimun fyrir nemendur annars bekkjar í grunnskólum í Reykjanesbæ og hefur árangur nemenda farið batnandi síðustu árin. Þegar tölur frá síðastliðnu vori eru skoðaðar kemur í ljós að 69,44%% nemenda í öðrum bekk í Reykjanesbæ geta lesið sér til gagns og er meðalárangur þeirra 72,55%.
Nú hefur Reykjavíkurborg birt niðurstöður sínar úr sömu Læsis-skimun frá síðasta vori. Þar kemur fram að 63% nemenda í Reykjavík geta lesið sér til gagns og er meðalárangur þeirra 70%.
Aðspurður þakkar Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar góðan árangur gæðakennslu, sem meðal annars felst í markvissum vinnubrögðum kennara, samvinnu kennara milli skóla og skólastiga og góðri samvinnu milli heimilis og skóla. Góð lestrarkennsla í leik- og grunnskólum á Reykjanesbæ síðustu árin er greinilega farin að bera árangur, raunar ekki bara í Reykjanesbæ því framfarir eru einnig í Garði og Sandgerði og er árangur barna á Reykjanesi öllu einnig yfir meðaltali Reykjavíkur líkt og sjá má á meðfylgjandi töflu.
Mikil samvinna er milli skóla í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði. Skólarnir á Reykjanesi fara þó ólíkar leiðir í lestrarkennslunni en markvisst er unnið að því að bæta lestrarfærni nemenda í þeim öllum.
Árangur í Læsi 2 vorið 2013 Reykjanes: Reykjanesbær, Garður og Sandgerði
Reykjavík | Reykjanes | Reykjanesbær | |
Hlutfall þeirra sem geta lesið sér til gagns | 63% | 65,73% | 69,44% |
Meðalárangur nemenda | 70% | 70,99% | 72,55% |