Góður andi á eigendafundi HS
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurféttir að góður andi hafi ríkt á fundi fjögurra stærstu eigenda Hitaveitu Suðurnesja sem fór fram í morgun.
„Við vorum meðal annars að ræða um samkomulag um forkaupsrétt eigenda í Hitaveitunni ef til þess kemur að hlutir verði seldir og það virðist vera sameiginlegur skilningur á þeim málum. “
Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður REI, kom m.a. á fundinn og fræddi fundarmenn um fyrirtækið og stefnu þess.
Árni segir margt framundan þar sem væntanleg er löggjöf um orkumál og einnig vilja aðrir eigendur vita hver stefna nýs meirihluta í Reykjavík verður í málum tengdum OR.
„Okkar hagsmunir eru hins vegar öflug Hitaveita á Suðurnesjum og mér sýndist allir á fundinum hafa skilning á því.“
Eigendur HS munu hittast á ný um miðjan nóvember og ræða málin á ný.