Góðir kennarar skila góðum árangri
Grein um árangur skóla á Suðurnesjum í virtu vefriti um skólamál.
„Ef nemendur ná ekki þeim árangri sem stefnt er að þá er við okkur sjálf að sakast, sagði skólastjóri í Reykjanesbæ á fundi þar sem stefna og árangur grunnskólanna í Reykjanesbæ var kynnt fyrir áhugasömu reykvísku skólafólki.“ Þetta kemur fram í grein á Krítinni, sem er vefrit og skólamál, sem ber yfirskriftina Góðir kennarar skila góðum árangri. Höfundur greinarinnar er Nanna Kristín Christiansen, annar ritstjóra Krítarinnar og verkefnastjóri á skóla-og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
Breytt og bætt vinnulag kennara
Nanna Kristín segir að í Reykjanesbæ skýri skólafólk ekki slakan árangur nemenda með erfiðum árgöngum, veikum félagslegum bakgrunni nemenda né heldur háu hlutfalli barna af erlendum uppruna. „Enda benti fræðslustjórinn Gylfi Jón Gylfason á þá kunnu staðreynd að útlendingar gætu bæði lært að lesa og reikna. Gylfi minnti einnig á að erfiðir árgangar eða veikur félagslegur bakgrunnur nemenda geri hinsvegar meiri kröfur til kennaranna og eina leiðin sem við höfum á valdi okkar til að auka námsárangur nemenda sé að breyta og bæta vinnulag kennara. Ekki vegna þess að það hafi verið slæmt, heldur vegna þess að það á að verða enn betra. Allt bendir til að það hafi tekist. Það virðist ljóst að Reykjanesbær státar af góðum kennurum og stefnan er enn tekin upp á við,“ segir Nanna Kristín.
Breyta erfiðu samfélagsástandi í gengum skólana
Þá er einnig tekið fram að mjög áhugavert hafi verið að fylgjast með því úr fjarlægð hvernig heilu sveitarfélagi hafi tekist að snúa við blaðinu þegar kemur að árangri nemenda í samræmdum prófum. „Frá því að hafa verið neðarlega á þeim lista og með hátt hlutfall brotthvarfs stefna skólarnir nú hraðbyr upp á við jafnframt því sem dregið hefur úr brotthvarfi nemenda. Þessi árangur ætti að vera öllum sem hafa áhuga á menntun og bættu samfélagi mikil hvatning.“ Nanna Kristín talar síðan um leiðina sem sveitarfélagið hafi farið og tengir hana við leiðir sem tíðkast með góðum árangri erlendis. Einnig sé foreldrum boðin fræðsla og markvisst gefin hlutdeild í námi barna sinna með upplýsingu um námsáherslur. „Sáttmálinn í Reykjanesbæ snýst um að breyta erfiðu samfélagslegu ástandi, sem skapaðist í kjölfar alvarlegs hruns í atvinnulífinu, í gegnum skólann. Skólastjórar í leik- og grunnskólum eiga hlutdeild í stefn og mótun. Að lokum er vert að nefna að jákvæðum fréttum úr Reykjanesbæ hefur fjölgað og á skólinn ekki minnstan þátt í því,“ segir Nanna Kristín og óskar Reykjanesbæ til hamingju með glæsilegan árangur.