Góðir gestir í heimsókn í Saltfisksetrinu
Hjónin Francisko Daurella og eiginkona hans Carmen De Aguilera komu í heimsókn í Saltfisksetur Íslands. Þau hjónin ásamt fjölskyldu sinni reka innflutnings fyrirtækið Copesco Etrisa á Spáni sem fyrst og fremst verslar með saltfisk frá Íslandi. Fyrirtækið hefur í marga áratugi keypt saltfisk frá Grindavík og hefur haldið mikilli tryggð við Þorbjörn hf, nú Þorbjörn-Fiskanes hf.
Í heimildarmyndinni „Lífið er Saltfiskur“ sem er sýnd á einum af fjórum skjáum í safninu, sjást saman við samningaborð þeir Tómas Þorvaldsson fyrrverandi forstjóri hjá Þorbirni hf og þáverandi forstjóri S.Í.F ásamt Francisko Daurella að semja um saltfisk sölu til Spánar.
Fannst þeim hjónum mikið til koma um safnið og heimsóknina, en til að taka á móti þeim kom Gunnar Tómasson núverandi framkvæmdastjóri hjá Þorbirni-Fiskanesi hf. Tómas Þorvaldson var staddur utanbæjar og komst ekki til að taka á móti gömlum vinum. Friðrik Ásmundsson Brekkan, leiðsögumaður skipulagði ferðina.
Kemur þetta fram á vef Grindavíkur
Á myndinni frá hægri eru Gunnar Tómasson, Carmen De Aguilera, Francisko Daurella og Óskar Sævarsson forstöðumaður