Góðir framtíðarmöguleikar Suðurnesja
- Samkvæmt skýrslu Landfræðistofnunar Norðurlanda
Framtíðarmöguleikar Suðurnesja er góðir þegar mat er lagt á atvinnumál, íbúaþróun og efnahag, samkvæmt skýrslu Nordregio, Landfræðistofnunar Norðurlanda. Skýrslan var birt í dag og eru Suðurnesin í 18. sæti af 74 svæðum á Norðurlöndum. Í efstu sætunum eru Ósló, Stór-Kaupmannahafnarsvæðið og Stokkhólmur. Stór-Reykjavíkursvæðið er í 10. sæti á listanum. Staða Suðurnesja hefur batnað miðað við úttekt sem gerð var árin 2010 til 2015. Suðurnesin eru eina svæðið á landinu sem þannig er ástatt um. Önnur svæði á Íslandi eru í 26. til 41. sæti.
Fjallað er um skýrsluna á vef RÚV. Anna Karlsdóttir, sérfræðingur hjá Nordregio, sagði í samtali við RÚV að ef Suðurnesjasvæðið væri skoðað út frá nálægð við höfuðborgarsvæðið, íbúaþróun og íbúafjölda, þá sé líklegt að því vaxi ásmegin líka í tengslum við ýmsa aðra hagþróun. Anna nefndi einnig nálægð við Keflavíkurflugvöll og ný fyrirtæki sem tengd lífhagkerfi og gætu orðið vaxtarbroddur til framtíðar.