Góðar gjafir við opnun byggðasafns á Garðskaga
Byggðasafninu á Garðskaga bárust góðar gjafir á laugardaginn. Við opnun safnsins afhentu heiðurshjónin Guðni Ingimundarson og Þórunn Ágústa Sigurðardóttir safninu ómetanlega safnmuni. Guðni afhenti safninu glæsilegt vélasafn og Trukkinn, sem er er GMC árgerð 1942 en Guðni tók hann í notkunn árið 1954. Þá afhenti Þórunn Ágústa safninu 100.000 kr. sem verður varið til frekari uppbyggingar safnsins.
Vígsla Byggðasafns Garðskaga fór fram sl. laugardag að viðstöddum rúmlega 100 boðsgestum. Daginn eftir opnaði síðan safnið fyrir almenningi og verður Byggðasafnið á Garðskaga opið alla daga frá kl.13 til 17. Á sama tíma opnaði Flösin-kaffitería í húsnæði Byggðasafnsins.
Þennan fyrsta opnunardag komu rúmlega 200 gestir til að skoða safnið og flestir af þeim notuðu einnig tækifærið til að fá sér kaffi og meðlæti í kaffiteríunni Flösinni, sem er opin alla daga frá kl. 13 til 24.
Í Byggðasafninu á Garðskaga eru munir sem tengjast sjósókn, landbúnaði og heimilishaldi fólks í Garði fyrr á árum. Sérstaða safnsins felst hins vegar í vélasafni Guðna Ingimundarsonar á Garðsstöðum. Guðni hefur gert upp fjölda véla, mest gamalla bátavéla, og afhent safninu. Flestar vélarnar er hægt að gangsetja. Guðni hefur síðastliðin fimmtán ár eytt miklum tíma í að gera upp vélar. Hann hefur rifið vélarnar í sundur, enda flestar illa farnar, þrifið þær og gert við ónýta hluti.
Vélarnar fékk Guðni flestar þegar hann var með Trukkinn góða í hífingum þegar unnið var að því að skipta um vélar í bátum hér á svæðinu. Oftrar en ekki var Guðni fenginn til að hífa upp gömlu vélina og koma þeirri nýju niður. Guðni var þá fenginn til að farga gömlu vélinni og var þá fjaran ruslahaugur gamalla véla. Í stað þess að fara með vélarnar í fjöruna, fór Guðni með þær heim í skúr þar sem þær hafa síðan verið gerðar upp ein af annarri síðustu ár.
Þó svo safnið á Garðskaga hafi verið opnað að nýju í glæsilegu nýju 676 fermetra húsi, þá er mikil vinna framundan við að skrá muni á safninu. Sýningargripir eru allir komnir á sinn stað en fram kom í máli Ásgeirs Hjálmarssonar, safnsstjóra, við opnun safnsins að það verði vinna næstu vikna og mánaða að merkja alla muni og reyna að segja sögu þeirra eftir bestu getu.
Vélasafnið hans Guðna skipar stóran sess á safninu og á án efa eftir að vekja mikla athygli á safninu um komandi ár. Margt annarra muna er að finna á Garðskaga og t.a.m. hefur einum elsta báti sem til er á landinu verið komið haganlega fyrir á safninu. Þar er um að ræða sexæring með Engeyjarlagi sem gerður var út frá Vörum í Garði um áratuga skeið. Vísbendingar eru um það að báturinn hafi verið smíðaður 1879. Hann hefur verið í varðveislu Byggðasafns Suðurnesja í 25 ár en fjölskyldan í Vörum fékk bátinn til baka í Garðinn þegar ljóst var að hann fengi inni á safninu. Þorvaldur Þorvaldsson, einn fjölskyldumeðlima úr Vörum, endurbyggði síðan sexæringinn með aðstoð Gunnars Marels Eggertssonar skipasmiðs.
Við opnun safnsins á Garðskaga sl. laugardag var aðdragandi að stofnun þess rakinn, en upphaf safnsins má rekja aftur til ársins 1980 eða þar um bil þegar Ásgeir Hjálmarsson, núverandi safnsstrjóri, hóf að safna gömlum munum, sem flestir tengdust sjósókn. Í kjölfar sýningar í Gerðaskóla í tilefni 120 ára afmælis skólans árið 1992 komst hreyfing á safnamálin og framhaldið þekkja flestir Garðmenn. Fengin voru útihús við Garðskagavita og þar var safninu komið fyrir. Það hefur síðan hlaðið utan á sig og í dag er safnið í glæsilegu sýningarhúsi. Það var Björn G. Björnsson, sýningahönnuður sem skipulagði sýninguna. Sjóminjar, bátar og vélarnar eru í nýja sýningarsalnum, áhöld til landbúnaðar eru í gömlu hlöðunni og ýmsar sérsýningar eru á efri hæð hlöðunnar. Þar er einnig fyrirhugað að koma upp mynda- og skjalasafni. Í gamla fjósinu er sýnt gamalt heimili; búr, eldhús og stofa.
Eins og fyrr segir er byggðasafnið opið alla daga kl. 13-17. Kaffiterían á Garðskaga, Útsýnis- og veitingastaðurinn Flösin, er hins vegar opin frá kl. 13-24 alla daga. Þar er hægt að fá keyptar léttar veitingar og njóta útsýnis yfir Faxaflóann. Síðustu daga hafa hvalavöður verið uppi í landsteinum og alla daga er fólk að sjá sjaldséða fugla á vappi í fjörunni. Hægt er að setjast niður inni á veitingastaðnum eða fara út á rúmgóðar svalir og njóta veitinga þar á fallegum degi. Næsta verk er að koma upp útsýnisskífu á svölunum og að bjóða fólki aðgang að sjónaukum. Þá hefur það einnig verið nefnt að setja upp ratsjá á Garðskaga og bjóða fólki þannig að fylgjast með skipaumferð.
Á jarðhæð undir veitingastaðnum er síðan sýningaraðstoða þar sem listafólki stendur til boða að setja upp listsýningar. Sýningum verður skipt ört út, þannig að sem flestir listamenn fái tækifæri til að sýna og selja list sína á Garðskaga. Þá gera menn sér vonir um að hægt sé að nýta aðstöðuna á Garðskaga fyrir minni fundi og veislur utan hins hefðbundna ferðamannatíma.
Aðalverktakar að byggingu Byggðasafnsins á Garðskaga voru þeir Bragi Guðmundsson byggingaverktaki og Tryggvi Einarsson jarðvinnuverktaki. Kostnaður við byggingu safnsins og frágangs á umhverfi á Garðskaga er um 100 milljónir króna.
Myndir: [email protected]