Góðar gjafir til Dósasels

- afkastagetan tvöfaldast í febrúar á næsta ári

Dósaseli Þroskahjálpar á Suðurnesjum barst á dögunum góð gjöf frá Advania. Það var viðbót við símkerfi Dósasels sem gerir starfsfólki kleift að svara síma þráðlaust í móttökustöðinni við Hrannargötu. Þá fengu starfsmenn Dósasels einnig gjafir frá fyrirtækinu.

Það hefur verið mikið annríki í Dósaseli í allt sumar og stundum langar raðir út á götu þegar fólk mætir með flöskur og dósir í endurvinnsluna. Nýja húsnæðið hjá Dósaseli gerir ráð fyrir að þar séu tvær vélasamstæður í dósamóttöku og flokkun. Hins vegar hefur orðið töf á að seinni vélin komi til Dósasels. Nú liggur fyrir að það verður ekki fyrr en í febrúar á næsta ári.

Vinnudagurinn í Dósaseli er langur. Strákarnir sjö sem vinna í móttökustöðinni hefja störf ýmist kl. 08 eða 09 að morgni alla virka daga. Fram að hádegi er unnið að flokkun umbúða frá fyrirtækjum og þeim sem berast sem gjafir til Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Frá kl. 12:00 er svo opið fyrir móttöku frá almenningi sem stendur til 16:30. Þá er lokað fyrir móttöku en starfsemin heldur þá áfram í hálftíma til klukkustund við flokkun áður en þrif á húsnæðinu eru unnin.

Eins og sjá má er vinnudagurinn hjá Dósaseli langur og ekki hægt að lengja hann þar sem vinnustaðurinn er fyrir starfsmenn með skerta starfsgetu. Dósamóttakan skiptir hins vegar Þroskahjálp miklu máli og Suðurnesjamenn hvattir til að sýna ástandinu þolinmæði þar til nýja flokkunarvélin verður komin í starfrækslu um miðjan febrúar.