Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Góð veiði Suðurnesjabáta í október
Áskell EA landar í Njarðvíkurhöfn á síðasta ári. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 2. nóvember 2018 kl. 10:24

Góð veiði Suðurnesjabáta í október

Tíminn líður áfram og ekkert stoppar hann. Októbermánuður svo til að verða búinn og eru þá ekki nema tveir mánuðir eftir í nýtt ár. Veiði bátanna frá Suðurnesjum í október var nokkuð góð og ennþá eru stóru línubátarnir sem og togskipin að landa úti á landi og láta aka aflanum suður til vinnslu. 
 
Ef stóru línubátarnir eru skoðaðir þá er Hrafn GK kominn með 380 tonn í sjö róðrum, öllu landað á Siglufirði. Páll Jónsson GK með 377 tonn í 4 róðrum. Reyndar bilaði Páll Jónsson GK nokkuð alvarlega núna um daginn þegar hann var að veiðum í Húnaflóa. Fór skiptiteinn í skrúfunni og var báturinn ekki fær um að sigla fyrir eigin vélarafli. Kalla þurfti út aðstoð og var björgunarbáturinn Húnabjörg kölluð út og tók Pál Jónsson GK í tog og dró bátinn á móts við dráttarbátinn Seif frá Akureyri, sem tók við bátnum og dró hann til Akureyrar þar sem báturinn fór í slipp til viðgerðar.
  
Jóhanna Gísladóttir GK er með 362 tonn í 4 róðrum en bæði hún og Páll Jónsson GK landa á Sauðárkróki. Fjölnir GK var með 342 tonn í 4 róðrum, nýi Sighvatur GK var með 262 tonn í 4  og Kristín GK 253 tonn í 4 löndunum. Allt eru þetta Vísisbátar og landa þeir allir á Sauðárkróki.
 
Þorbjarnarbátarnir hafa allir landað á Siglufirði eins og greint er frá að ofan með Hrafn GK.  Hinir eru Valdimar GK með 265 tonn í 6 róðrum og Sturla GK með 233 tonn í 3 róðrum og mest 118 tonn í róðri.
 
Hjá minni bátunum sem ennþá eru flestir fyrir norðan og austan, er Óli á Stað GK með 144 tonn í 25 löndunum á Skagaströnd.  Hulda GK 111 tonn í 21 löndun, Guðbjörg GK 77 tonn í 14 og Katrín GK 37 tonn í 11 löndunum, allir á Skagaströnd. Auður Vésteins SU með 100 tonn í 16.  Vésteinn GK 105 tonn í 15 og Gísli Súrsson GK með 90 tonn í 15 löndunum, allir á Stöðvarfirði.
  
Hjá bátunum undir 15 BT þá er Von GK með 92 tn í 14 og Dóri GK 86 tn í 13, báðir á Neskaupstað. Sævík GK, sem var áður Óli Gísla GK, er með 76 tn í 16 og Daðey GK 69 tn í 17, báðir á Skagaströnd.
  
Og svo má ekki gleyma þeim fáu línubátum sem eru að róa frá Suðurnesjunum og þá aðallega frá Sandgerði. Bergur Vigfús GK 3,3 tonn í 1, Addi Afi GK 3,8 tonn í 2,  Birta Dís GK 2,9 tonn í 1, Ölli Krókur GK 1,1 tonn í 1, Rán GK 3,1 tonn í 2 í Grindavík og Andey GK 31,3 tonn í 11 róðrum.
 
Netabátarnir hafa fiskað ágætlega og þá aðallega Grímsnes GK sem heldur áfram góðu gengi sínu á ufsanum úti við suðurströndina. Grímsnes GK hefur verið á veiðum frá Þjórsársósum og austur að Vík í Mýrdal og landað í Þorlákshöfn. Er búinn að landa 184 tonn í aðeins 9 róðrum og af því þá er ufsi um 169 tonn.  
Aðrir netabátar eru t.d. Maron GK með 33 tonn í 17. Valþór GK með 22 tonn í 16. Halldór afi GK með 17 tonn í 15 róðrum. Sunna Líf GK 15 tonn í 9 og Erling KE 1,8 tonn í einum.
 
Togarnir eða togbátarnir hafa líka verið að landa úti á landi og er Berglín GK með 406 tonn í 5, landað á Ísafirði og Siglufirði. Sóley Sigurjóns GK 394 tonn í 5, landað á sömu stöðum.  Áskell EA 311 tonn í 6, landað á Ísafirði, Eskifirði og í Grindavík. Vörður EA 281 tonn í 6, landað á sömu höfnum. 
 
Áskell EA og Vörður EA eru, þótt þeir séu skráðir EA og með heimahöfn á Grenivík, hafa átt langa sögu í Grindavík því að útgerðarfélagið Gjögur ehf., sem gerir út bátanna, á sér langa útgerðarsögu bæði í Grenivík og Grindavík.  Til dæmis voru tveir bátar á vegum Gjögurs,  Oddgeir ÞH og Vörður ÞH, gerðir út frá Grindavík í hátt í 35 ár. Sömuleiðis var eikarbáturinn Áskell ÞH gerður út frá bæði Grenivík og Grindavík í hátt í 40 ár.
 
Reyndar munu báðir þessir togbátar, Áskell EA og Vörður EA, víkja fyrir nýrri og fullkomnari togbátum sem Gjögur er að láta smíða fyrir sig og vekur það nokkra athygli því að báðir þessir bátar eru ekki gamlir. Áskell EA er smíðaður árið 2009 og því ekki nema 9 ára gamall og Vörður EA er smíðaður árið 2006 og er því 12 ára gamall.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024