Góð tilfinning að gefa
- Sigurður Wíum Árnason færði Krabbameinsfélagi Suðurnesja tvær milljónir
„Ég hugsaði með mér að ef ég hefði efni á þessu þá ætti ég bara að gera þetta. Mér líður mikið betur núna en fyrir viku síðan,“ segir Sigurður Wíum Árnason, sem á dögunum færði Krabbameinsfélagi Suðurnesja tvær milljónir króna að gjöf. Gjöfin er til minningar um eiginkonu hans, Auði Bertu Sveinsdóttur og son, Svein Wíum, en þau létust bæði eftir glímu við krabbamein. Auður Berta lést árið 1983 en Sveinn árið 2006. Sigurður segir brýnt að þeir sem geti láti eitthvað af hendi rakna til samfélagsins. „Það eru margir sem hafa efni á því að gauka einhverjum krónum að góðum málstað. Það þarf ekki að vera stórt, heldur tákn um viðleitni. Ég er nú bara lítill karl,“ segir hann.
Krabbameinsfélag Suðurnesja fær ýmsar gjafir og eru margir sem til dæmis láta afmælisgjafir renna til félagsins. Lítill hluti af gjöfunum rennur í rekstur félagsins en mestur hlutinn til sjúklinga. Styrkir sem þessi séu notaðir til að létta undir hjá fólki við dýrar lyfjagjafir. „Ég vona innilega að styrkurinn komi að góðum notum enda er krabbamein algengur sjúkdómur. Við götuna mína eru tólf hús en samt hafa átta manns hérna í götunni látist úr krabbameini.“
Sigurður var valinn Suðurnesjamaður ársins hjá Víkurfréttum árið 2008 en á tímabilinu 2006 til 2008 gaf hann Heilbrigðisstofnun Suðurnesja tæki og búnað að andvirði tæpar sex milljónir króna. Árið 2010 gaf hann D-deild HSS tvær milljónir króna. Á þann hátt vildi hann sýna þakklæti fyrir þá umönnun sem sonur hans og eiginkona fengu á stofnuninni. Hann kveðst hafa komist í gegnum sorgina án hjálpar frá fagfólki. „Maður verður að vinna úr þessu sjálfur og það hjálpar manni enginn nema maður sjálfur. Ef eitthvað bjátar á þá verður maður að vinna úr því. Ég sá í hvað stefndi og bjó mig undir það. Meira gat ég ekki gert,“ segir Sigurður um sorgina.
Sigurður fæddist í Reykjavík árið 1935 og ólst upp við Fálkagötuna sem þá tilheyrði ekki Reykjavík heldur Skildinganesi. Hann flutti til Keflavíkur árið 1971 en hafði þá þegar verið á vetrarvertíð á Suðurnesjum. Meirihluta starfsævinnar vann hann við sjávarútveg, bæði til sjós og lands og starfaði meðal annars við fiskvinnslu í Brynjólfi í Innri-Njarðvík í 17 ár. „Maður er búinn að prufa ýmislegt en ekki mjög margt,“ segir hann hógvær.
Fólk hefur haft á orði við Sigurð að hann verði að gæta sín á því að gefa ekki of mikið svo það verði eitthvað eftir fyrir hann sjálfan en hann segir slíkar áhyggjur með öllu óþarfar. „Svo hugsar maður hvaða málefni verði næst. Ef mér endist aldur til þá gef ég aftur en hvenær það verður, verður bara að koma í ljós. Ég er ekkert hættur.“
Minnast þess ekki að hafa fengið svo háa upphæð frá einstaklingi áður
Í tilkynningu frá Guðmundi Björnssyni, formanni Krabbameinsfélags Suðurnesja, segir að þau séu Sigurði einstaklega þakklát fyrir þessa rausnarlegu gjöf sem hann veitti með svo myndarlegum hætti til minningar um sína nánustu ástvini. „Við minnumst þess ekki að hafa fengið svo háa upphæð frá einum einstaklingi áður til styrktar félaginu.
Víst er að þetta á eftir að nýtast vel og eykur mjög möguleika okkar á að koma til aðstoðar við fleiri einstaklinga í erfiðleikum og fjölskyldur þeirra. Á starfstíma félagsins sem verið hefur óslitinn frá stofnun 1953 hefur verið ómetanlegt að finna sífellt til vinsemdar og velvilja samfélagsins hér á svæðinu til starfsemi félagsins. Tilgangur og markmið með starfinu er og verður að koma til aðstoðar við krabbameinssjúka og fjölskyldur þeirra eftir bestu getu ásamt því að huga að forvörnum og veita upplýsingar um þá aðstoð sem í boði er.
Um leið og við óskum Sigurði Wíum velfarnaðar og ítrekum þakkir okkar fyrir höfðinglega gjöf viljum við einnig þakka öllum þeim aðilum sem stutt hafa við starfsemi félagsins á umliðnum árum.“