Góð þátttaka í Codland vinnuskólanum í Grindavík
Íslenski sjávarklasinn verður með vinnuskóla í Grindavík um sjávarútveginn dagana 12. til 15. ágúst. Nemendum á efstu stigum grunnskóla, fædda 1998 og 1999 gefst kostur á að taka þátt í því starfi sem verður í boði. Nemendur fá greitt skv. launatöflu unglingavinnunnar í Grindavík.
Codland vinnuskólinn hefur það að markmiði að efla áhuga á sjávarútveginum og sýna nemendum þau víðfeðmu áhrif sem hann hefur á okkar samfélag.
Borið hefur á miklu áhugaleysi í garð sjávarútvegsiðnaðarins hjá nemendum á bæði grunnskóla og framhaldsskólastigi og er þetta því liður í því að snúa því við til að stuðla að auknum áhuga ungs fólks að okkar dýrmætu auðlind.
Í Codland vinnuskólanum fá nemendur fræðslu um íslenskan sjávarútveg, fara í vettvangsferðir og vinna verkefni sem tengjast nýsköpun sjávariðnaðarins.
Fjölmörg fyritæki koma til með að veita nemendum innsýn í sína starfsemi. Þar á meðal má nefna Þorbjörn, Vísi, Stakkavík, Stjörnufisk og Veiðifæraþjónustuna í Grindavík.
Undirbúningur gengur vel og þátttaka verið til fyrirmyndar, en enn eru þó nokkur laus pláss í vinnuskólanum fyrir áhugasama. Skráning fer fram á Codland.is/vinnuskolinn og hægt er að hafa samband í netfangið [email protected] fyrir frekari upplýsingar.