Góð samskipti mikilvæg milli aðila í úrbótum húsnæðis
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir það að mikilvægt er að góð samskipti verði að vera á milli aðila þegar kemur að úrbótum húsnæðis þar sem stofnanir sveitarfélagsins eru með starfsemi sína og ítrekar þakkir sínar til starfsfólks leik- og grunnskóla sem hafa á síðustu árum sýnt mikla þrautseigju og þolinmæði í störfum sínum í flóknum og krefjandi aðstæðum. Saman gerum við gott samfélag betra.“
Þetta kemur fram í bókun sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar lagði fram á síðasta fundi hennar undir fundargerðum fræðsluráðs og samþykkti samhljóða.
Margrét Sanders, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ lagði fyrr á fundinum fram bókun vegna máls úr fundargerð bæjarráðs frá 9. febrúar, þar sem rakaskemmdir í stofnunum bæjarins voru til umfjöllunar.
„Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að góð samskipti þurfi að vera á milli fulltrúa Reykjanesbæjar, starfsfólks stofnana og annarra notenda húsnæðis þar sem mygla hefur greinst. Upplýsingar þurfa að vera skýrar og mikilvægt er að ekki sé gert lítið úr þeim einkennum sem aðilar finna fyrir,“ segir í bókuninni sem Margrét Sanders, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Birgitta Rún Birgisdóttir rita undir.