Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Glómun framkvæmd í fyrsta sinn á Íslandi
Fimmtudagur 12. febrúar 2004 kl. 13:28

Glómun framkvæmd í fyrsta sinn á Íslandi

Læknar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja framkvæmdu í dag í fyrsta sinn á Íslandi æðahnútaaðgerð sem byggir á nýrri tækni, svokallaðri Glómun. Nýja tæknin byggist á því að glóþráður er þræddur inn í viðkomandi æð sem síðan er soðin og notast er við ómtækni við aðgerðina. Franskur læknir, Michel Nuta er staddur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann kennir læknum þessa nýju aðferð en Michel ferðast um heiminn og kennir þessa nýju tækni.

Að sögn Árna Leifssonar yfirlæknis á skurðdeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er um töluverða byltingu að ræða í æðaskurðlækningum á Íslandi með þessari nýju tækni. „Í stað þess að skera burtu æðina er henni lokað með glóþræði. Hagurinn af því að gera þetta svona eru mun minni óþægindi fyrir sjúklinginn sem verður vinnufær eftir einn dag, í stað 10 daga áður þegar æðar þurfti að skera burt og lýtin á sjúklingnum verða mun minni.“
Nafn aðgerðarinnar, Glómun er nýyrði í íslensku máli og segir Árni að nafnið sé tilkomið vegna notkunar glóþráðar og ómtækni við aðgerðina.

Myndirnar: Fjölmenni var á skurðstofunni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í morgun þar sem franski læknirinn Michel Nuta kenndi læknum stofnunarinnar Glómun.

VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024