Glitnir vill selja í Fasteign
Glitnir hyggst selja hlut af eignarhlut sínum í Fasteign ehf en bankinn hefur verið stærsti hluthafinn í félaginu ásamt Reykjanesbæ. Í morgun lá fyrir í bæjarráði Reykjanesbæjar erindi frá Fasteign um fyrirhugaða sölu en aðrir hluthafar eiga forkaupsrétt í félaginu.
Á fundinum var samþykkt einróma tillaga Guðbrands Einarssonar, oddvita A-lista, þess efnis að bæjarráð frestaði ákvörðun um nýtingu forkaupsréttar og leitað yrði til sérfróðra aðila sem kanna myndu kosti þess að sveitarfélagið nýtti forkaupsréttinn og yki þar með hlut sinn í Fasteign.
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga samþykkti nýlega að nýta ekki sinn forkaupsrétt á hlutum í félaginu.