Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Glerlistaverkin verða flutt til en ekki tekin niður
Mánudagur 2. janúar 2006 kl. 16:02

Glerlistaverkin verða flutt til en ekki tekin niður

Glerlistaverk Leifs Breiðfjörð í brottfararsal flugstöðvarinnar verða flutt til í salnum og „geymd“ þar hangandi í loftinu á meðan framkvæmdir standa yfir. Áður hafði komið til tals að taka verkin í sundur og setja saman á ný að framkvæmdum loknum.

Víst er að menn hlökkuðu ekki beinlínis til þess verkefnis enda þarf ekki mikið til að listaverk skemmist þegar átt er við þau á þann hátt. Hugmyndaríkir menn duttu hins vegar ofan á lausn sem er bæði snjöll og tiltölulega einföld, nefnilega þá að setja stálbita upp í loftið, festa listaverkin við „hlaupaketti“ (rennikrana) og færa þau 20 metra inn í brottfararsalinn! Þar munu listaverkin svo bíða þar til framkvæmdum lýkur. Þá verða þau færð til baka á sinn stað, farþegum og gestum til ánægju og augnayndis hér eftir sem hingað til.

Fulltrúar verktakafyrirtækisins Ístaks, flugstöðvarinnar og verkefnisstjórnar ákváðu þetta nú á milli hátíðanna. Leifur Breiðfjörð, glerlistamaður, mætti til fundarins og sagðist í samtali við heimasíðu flugstöðvarframkvæmdanna, airport.is, vera afar ánægður með niðurstöðuna.

„Hugmyndin er mjög sniðug og ég er sammála því mati Ístaksmanna að listaverkunum sé mun minni hætta búin með því að færa þau svona til frekar en láta þau síga niður á gólf og taka þar í sundur, stykki fyrir stykki,“ segir Leifur.

Nauðsynlegt er að taka listaverkin niður eða færa þau frá til að iðnaðarmenn geti athafnað sig við breytingar í flugstöðinni til beggja enda í byggingunni. Nú verður sem sagt ráðist í að færa verkin fljótlega í janúar.

Hvort listaverk um sig er á annað tonn á þyngd. Á sínum tíma var rammi þeirra settur upp fyrst en glerinu síðan raðað í hlutum á sinn stað eftir kúnstarinnar reglum. Reyndar voru björgunarsveitarmenn á Suðurnesjum fengnir til þessa verks, hangandi í köðlum sem festir voru upp í rjáfur!

Glerlistaverk Leifs Breiðfjörð í flugstöðinni hafa vakið verðskuldaða athygli þeirra sem leið eiga um Keflavíkurflugvöll og um þau hefur verið fjallað í erlendum tímaritum og bókum um glerlist, enda þykja þau sérstök eða jafnvel einstök af ýmsum ástæðum. Jafnvel er dæmi um í erlendri listaverkabók að mælt sé með ferð til Íslands til að sjá glerlistaverkin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024