Glerbrotum rigndi þegar rúða brotnaði á Domino’s

Björgunarsveitarmenn úr Björgunarsveitinni Suðurnes voru kallaðir til þegar rúða brotnaði í pizzastað Domino’s í Reykjanesbæ í kvöld.
 
Þakjárn af bensínstöð N1, sem stendur við hlið Domino’s, losnaði og fauk í rúðuna. Glerbrotum rigndi inn á staðinn og mikið af glerbrotum var einnig utan við húsið.
 
Ákveðið var að loka staðnum eftir atvikið. Fljótlega eftir að neglt hafði verið fyrir gluggann fór svo rafmagn af Suðurnesjum og því var sjálfhætt við pizzabaksturinn.
 
Myndina tók Hilmar Bragi þegar björgunarsveitarmenn voru að störfum.