Glæsileg opnunarhátíð
Hljómahallar, Rokksafns Íslands og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Fjöldi manns var saman kominn í dag til að fagna merkum áfanga í sögu tónlistar, menningar og safna á Íslandi. Opnunarhátíð Hljómahallar, Rokksafns Íslands og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fór fram í glæsilegu, bæði nýju og endurbættu húsnæði. Sex ár eru síðan Rúnar Júlíusson, Ragnheiður Skúladóttir og Böðvar Jónsson tóku fyrstu skóflustunguna að viðbyggingunni.
„Segja má að 6 árum síðar, eða á árinu 2004, hafi svo komið fram fyrstu alvöru hugmyndir að byggingu nýs húsnæðis undir Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en þá kynnti Reykjanesbær hugmyndir að byggingu nýs tónlistar- og ráðstefnuhúss sem yrðu í kringum félagsheimilið Stapa í Njarðvík. Þar var komin fram fyrsta hugmynd að Hljómahöll, þeirri sem við nú stöndum í,“ sagði Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar m.a. í ræðu sinni.
Aðrir sem tóku til máls voru Árni Sigfússon, bæjarstjóri og Kjartan Már Kjartansson, formaður stjórnar Hljómahallar, sem einnig sá um veislustjórn. Fjölmargir fengu þakkir, enda hefur stór og þéttur hópur fólks, hver með sína sérþekkingu, snúið bökum saman til að gera þetta allt saman að veruleika og innan settra tímamarka.
Fjölbreytt og þétt tónlistardagskrá var sem hófst á hressum tónum Léttsveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í glæsilegu og stóru anddyri hallarinnar. Síðan tóku hvert tónlistaratriðið á fætur öðru í Stapa, sem gegnir áfram afar mikilvægu hlutverki. Þar stigu á stokk Elíza Newman, Valdimar Guðmundsson, Páll Óskar, Magnús og Jóhann, Magnús Kjartansson og Sönghópur Suðurnesja og fjörið endaði á viðeigandi hátt með keflvísku bítlahljómsveitinni Hljómum. Þá ætlaði þakið að rifna af húsinu og mikið var fagnað og klappað í lokin.
Meira væntanlegt frá Hljómahallaropnun í miðlum VF á næstu dögum, m.a. verður næsti sjónvarpsþáttur Sjónvarps Víkurfrétta helgaður opnun Hljómahallar.
Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar opnaði hátíðina. Hér er hann með hljómsveitina Hjálma í forgrunni.
Árni Sigfússon bæjarstjóri flutti ræðu í tilefni opnunarinnar og Of Monsters and Men í baksýn.
Kjartan Már Kjartansson, formaður stjórnar Hljómahallarinnar ávarpar gesti.
Tónlistarfrændur! Jóhann Helgason og feðgarnir Leifur Leifsson og Brynjar Leifsson, úr Of Monsters and Men.
Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar flutti nokkur lög við opnunina.
Risagítar uppi á vegg í glæsilegu rokksafni.
Úr anddyri Hljómahallarinnar. Afgreiðsluborðið er eins og gítarnögl.
Elíza Newman söng í Stapa.
Páll Óskar steig óvænt á svið og gerði allt vitlaust.
Dæmigerð uppsetning á safninu. Hér er gallinn sem Páll Óskar klæddist á tónleikunum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Páll gaf safninu allan sérsaumaða fatnað sem hann hefur verið í á ferlinum auk gull- og platínumplatna. Hann sagði þessa muni betur geyma á svona flotta safni en heima hjá sér.
Fjöldi fólks skoðaði sig um í fjölbreyttum og mörgum rýmum húsnæðisins. Hér eru gestir í Stapa. VF-myndir: pket.