Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gjöf til Iðnsveinafélagsins
Þriðjudagur 15. apríl 2003 kl. 15:40

Gjöf til Iðnsveinafélagsins

Á aðalfundi Iðnsveinafélags Suðurnesja sem haldinn var 20. mars afhenti skólinn félaginu að gjöf minnismerki um Halldór Pálsson. Halldór var formaður félagsins um árabil og var ávallt mikill stuðningsmaður Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Það var Kristján Jóhannesson, sviðsstjóri tæknisviðs, sem afhenti verkið fyrir hönd skólans. Kristján minnti félagsmenn um leið á hve mikilvægt það er fyrir skólann að vera í góðu sambandi við atvinnulífið og vonaðist til þess að framhald yrði á því góða sambandi sem verið hefur milli Iðnsveinafélagsins og Fjölbrautaskólans. Þetta samband hafi ávallt verið Halldóri Pálssyni hugleikið og það má sjá á hverjum degi í skólanum en nemendur í iðnnámi klæðast margir hlífðarsloppum með merki Iðnsveinafélagsins sem félagið gaf skólanum í formannstíð Halldórs.Það er fyrrverandi kennari við skólann, Sturlaugur Björnsson, sem á heiðurinn að hönnuninni eða sköpun listaverksins. Verkinu lýsir höfundurinn svo: "Allt handverk byggir á grunnformum. Í þessu myndverki eru þau tvö og er gefið rúmtak. Það er rétthyrningur í gullinsniði sem er úr slípuðu grágrýti. Halli er á rétthyrningnum þar sem eitt horn hefur verið sneitt af honum. Teningur úr ryðfríu stáli er látinn vega á móti hallanum. Þannig er jafnvægi komið á myndverkið." Myndverkið situr á stalli úr grágrýti. Stallurinn er 1m og 30 sm á hæð. Á honum er skjöldur sem á er letrað: Frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja til Iðnsveinafélags Suðurnesja til minningar um Halldór Pálsson velunnara skólans.

Á myndinni hér að neðan má sjá frá afhendingu verksins. Frá vinstri eru Sturlaugur Björnsson, Kristján Jóhannesson og Sigfús Rúnar Eysteinsson, formaður Iðnsveinafélags Suðurnesja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024