Gjalli og hraunslettum rignir niður umhverfis gíginn
Á undanförnum dögum hefur verið mikil kvikustrókavirkni í eldgosinu í Fagradalsfjalli. Kvikustrókar þeytast 100 til 300 metra upp úr gígnum og gjalli og hraunslettum rignir niður umhverfis gíginn og ræður vindátt hvert það berst. Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna.
Þeim mun hærri sem kvikustrókarnir eru þeim mun lengra berast þessi efni. Ef kvikustrókar ná 300 metra hæð og vindur er 13-15 metrar á sekúndu má búast við hraunbombum (molar/slettur sem eru meira en 6 sm í þvermál) í allt að 600 metra fjarlægð frá gígnum.
Glóandi slettur kveikja í mosa og gróðri sem þau lenda á og í reyknum er mikið af kolmónoxíði (CO) sem er eitrað fólki. Stundum mælist það mikið af kolmónoxíði í reyknum af gróðurbrunanum að slökkviliðsmenn myndu nota reykköfunartæki ef þeir ætluðu inn á svæðið.
Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi í dag til að ræða stöðuna á eldgosinu við Fagradalsfjall. Nýjustu mælingar og gögn gefa til kynna að á síðustu dögum hafi kvikuflæði vaxið og sé nú nærri 13 rúmmetrum á sekúndu samkvæmt upplýsingum sem birtar voru í gær. Flatarmál hraunsins er nú 1,78 ferkílómetrar og rúmmál hraunsins sem runnið hefur mælist 30,7 milljónir rúmmetra. Gera verður ráð fyrir að auknu kvikuflæði fylgi aukið útstreymi eldfjallagasa.