Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Gist var í fimm húsum í Grindavík í nótt
Föstudagur 8. mars 2024 kl. 15:07

Gist var í fimm húsum í Grindavík í nótt

Fáir Grindvíkingar kjósa að dvelja í bænum næturlangt. Þeim er það heimilt en lögreglustjóri mælir alls ekki með því og getur ekki ábyrgst öryggi þeirra ef til eldgoss kemur. Gist var í fimm húsum í nótt, segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Á meðan að kvika heldur áfram að safnast fyrir undir Svartsengi eru auknar líkur á eldgosi. Aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá getur hætta leynst utan merktra svæða. Veðurstofan gaf út nýtt hættumatskort í gær, 7. mars 2024 kl. 15 og gildir það til 12. mars 2024 kl. 15 að öllu óbreyttu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líkleg atburðarrás næstu daga:

Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og eldgosi.

Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur.

Líklegt er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

Skjálftavirkni við kvikuganginn hefur farið minnkandi síðan laugardag 2. mars sl., einkum síðustu daga þar sem fáir skjálftar hafa mælst. Veður hefur hins vegar deyft eða truflað skjálftamælana, svo líklega eru fleiri skjálftar, en allt smáskjálftar.

Veðrið næstu sólarhringa er líklegt til að hafa áhrif á eftirlitskerfi Veðurstofunnar. Næsta sólarhringinn verður suðaustan strekkingur eða allhvass vindur með rigningu og takmörkuðu skyggni, einkum til fjalla. Í fyrramálið dregur úr úrkomu en á morgun og næstu daga er útlit fyrir stöku skúri og líklegt að skyggni verði lítið meðan þetta gengur yfir. Heldur dregur úr vindi um helgina, suðaustan stinningsgola eða kaldi á sunnudag.

Þensla heldur áfram undir Svartsengi og líkanreikningar byggðir á GPS gögnum frá 3.-6. mars sl. sýna að um 1,2 milljón rúmmetrar af kviku hafa bæst við í kvikuhólfið þessa daga. Þannig að í heildina hafa rúmlega 10 milljón rúmmetrar af kviku safnast í kvikuhólfið. Staðan er því svipuð eins og hún var fyrir kvikuhlaupið 2. mars sl.


Lögreglustjóranum á Suðurnesjum þykir rétt að árétta neðangreint.

Ríkislögreglustjóri féll frá fyrirmælum um brottflutning úr Grindavík frá og með 19. febrúar 2024. Ákvörðun ríkislögreglustjóra um brottvísun, með heimild í 24. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008, tók gildi 15. janúar sl. og var síðan framlengd einu sinni eða þann 4. febrúar sl.

Með hliðsjón af framansögðu ákvað lögreglustjórinn á Suðurnesjum að heimila Grindvíkingum og þeim sem starfa Í Grindavík að dvelja og starfa í bænum allan sólarhringinn. Mikilvægt er að hafa neðangreint í huga:

Íbúar og starfsmenn fari inn í bæinn á eigin ábyrgð.

Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.

Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik.

Þar eru ekki starfræktir skólar og innviðir eru í ólestri. Lögreglustjóri mælir alls ekki með því að fólk dvelji í bænum.

Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirfara.

Hætta er metin töluverð á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum.

Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun. Þá hafa sprungur verið girtar af.

Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega.

Fólk haldi sig við götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.

Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja bæjarins og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.

Fjölmiðlafólk hefur heimild til að fara inn í bæinn með sama hætti og íbúar og starfsmenn fyrirtækja.

Á starfssvæði Bláa Lónsins og HS orku er talin töluverð hætta á hraunflæði.

Um tíma þrengdi að aðkomuleiðum þegar hraun rann yfir Grindavíkurveg og lokaði leiðinni inn að Bláa Lóninu, Northern Light Inn og HS orku.

Lagður var vegur yfir ný runnið hraunið og aðkoma um Grindavíkurveg opnuð að nýju.

Enn eru hættur á svæðinu í kjölfar eldgoss við Stóra Skógfell og aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá geta hættur leynst utan merktra svæða. Land rís í Svartsengi og merki eru um að það styttist í næsta gos vegna þeirrar kviku sem safnast nú saman undir Svartsengi.

Lokunarpóstar eru við Bláalónsveg, Nesveg og Suðurstrandarveg. Þá er ekki hægt að aka Grindavíkurveg inn til Grindavíkur þar sem hraun rann yfir þjóðveginn í eldgosinu 14. janúar sl.

Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settir upp þrjár viðvörunarflautur í Grindavík. Þá er ein slík við Bláa lónið og önnur við HS orku í Svartsengi. Þær hafa verið notaðar með góðum árangri.

Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla sinnir lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur. Þá er sjúkrabíll staðsettur í Grindavík alla daga á dagtíma.

Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/ þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is og heimasíðu almannavarna á slóðinni www.almannavarnir.is

Með vísan til 23. gr. laga um almannavarnir nr. 88/2008 eru takmarkanir ekki aðrar en að framan greinir.

Framangreint fyrirkomulag verður tekið til endurskoðunar föstudaginn 15. mars 2024 eða fyrr eftir atvikum.