Gígurinn trónir mun hærra í landinu
Stöðug gosvirkni er áfram í eina gígnum við Sundhnúka. Gígurinn er orðinn hár og stendur sennilega 20-30 metra yfir umliggjandi hraunbreiðu, segir á fésbókarsíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. Trónir hann mun hærra í landinu núna en gígurinn sem lifði lengst í síðasta gosi.
Sagt er frá því að síðunni að hraun hefur síðustu daga runnið að mestu til norðurs að Sýlingarfelli. Hrauntunga hefur þar verið að skríða hægt fram meðfram fjallinu og að varnargarðinum sem nefnist L1 og því minna en 1 km frá Grindavíkurvegi.
Kvikusöfnun virðist hafin á nýjan leik undir Svartsengi. „Áhugavert er að bera það saman við gosvirknina, en hún féll skyndilega í byrjun vikunnar og virðist kvikusöfnunin hafa hafist nokkurnveginn strax eftir það,“ segir í færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.