Fréttir

Getur Helguvík skaðað hesta á Mánagrund?
Frá Mánagrund.
Mánudagur 20. apríl 2015 kl. 16:16

Getur Helguvík skaðað hesta á Mánagrund?

– Hestamannafélagið Máni fundar með hestamönnum í kvöld

„Getur uppbygging atvinnulífs í Helguvík skaðað hestana okkar á Mánagrund?“ er yfirskrift fundar sem boðað hefur verið til af Hestamannafélaginu Mána í kvöld. Fundurinn verður haldinn í félagsheimili Mána við Mánagrund og hefst kl. 20:00. Hestamenn, sem og aðrir, eru hvattir til að mæta á fundinn. Frummælendur verða þau Ragnheiður Þorgrímsdóttir stjórnsýslufræðingur og bóndi og Sigurður Sigurðarson dýralæknir.

Á vef Mána segir: „Þann 30. apríl næstkomandi rennur út frestur til að gera athugasemd við deiliskipulag kísilverksmiðjunnar Thorsil í Helguvík. Ef engar athugasemdir berast frá bæjarbúum mun deiliskipulagið af öllum líkindum vera samþykkt. Hefur þá verið samþykkt starfsleyfi fyrir álver og tvær kísilverksmiðjur. Mánagrund er innan þynningarsvæðis verksmiðjanna þar sem mesta eitrun verður og þar sem mengun má fara yfir umhverfismörk. Hvaða áhrif mun mengunin hafa á hrossin og beitilönd á Mánagrund?“.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir er formaður Umhverfisvaktar Hvalfjarðar, stjórnsýslufræðingur, kennari og bóndi á Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit.  Hún mun segja frá áralangri baráttu sinni til að fá Umhverfisstofnun til að gera ítarlega rannsókn á hrossum og umhverfi þeirra vegna meintrar mengunar frá stóriðju á Grundartanga. Barátta hennar við afbrigðileg veikindi vegna flúormengunar hefur verið til þess að hún hefur þurft að fella 12 hross á nokkrum árum.

Sigurður Sigurðarson dýralæknirtalar ræðir um reynslu sína á veikindum hrossa og öðrum kvillum vegna eiturmengunar frá stóriðju. Eft­ir Sig­urð liggja fjöl­marg­ar greinar í er­lend­um vís­inda­tíma­rit­um og í ís­lensk­um fag­blöðum land­búnaðar­ins. Hann hefur nýlega gefið út bókina „Sigurður Dýralæknir“ sem fjallar m.a. um áhrif flúormengunar á hross og aðra grasbíta á Íslandi.
 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024