Gestirnir hissa yfir íslensku verðlagi

-Hvetur ferðamenn til að skoða Suðurnesin

„Síðan við opnuðum hefur þetta gengið rosalega vel,“ segir Dagmara Kizica, starfsmaður Hotel Jazz, en hótelið hefur nú verið starfandi í tæpt ár í gamla húsnæði Tónlistarskóla Reykjanesbæjar að Austurgötu 13 í Keflavík.

Hótelgestirnir eru flestir af erlendu bergi brotnir og komnir til landsins til að skoða sig um. Dagmara segir gestina frá ýmsum löndum, alls staðar frá í heiminum. „Flugstöðin er svo nálægt. Túristarnir koma oft og gista eina nótt og fara svo og ferðast út á land. Svo koma þeir oftast hingað aftur daginn fyrir flug og skoða svæðið hér. Við erum með sautján herbergi og það er alltaf fullbókað hjá okkur. Ef við værum með þrjátíu herbergi þá væru þau pottþétt fullbókuð.“

Hún segir algengt að ferðamennirnir tali um að dýrt sé á Íslandi. „Fólk heldur að það sé ódýrt á Íslandi en kemur svo hingað og verður mjög hissa yfir þessu. Ég var að aðstoða ferðamenn um daginn sem höfðu athugað hvað það kostaði að fara með leigubíl þrjá kílómetra frá flugstöðinni. Það hefði kostað þá um 25 evrur, eða um 3.000 krónur. Það er ótrúlegt. Ferð í leigubíl héðan til Reykjavíkur aðra leiðina kostar um 17.500 krónur. Það gerist mjög sjaldan að fólk taki leigubíl héðan.“ Dagmara segir flesta ferðamennina kjósa frekar að taka rútu á milli staða eða leigja bílaleigubíl vegna verðsins.

Bláa lónið er vinsælt meðal ferðamanna en þeir komast margir hverjir ekki að vegna mikillar aðsóknar í þennan vinsæla ferðamannastað. „Það er oftast fullbókað í Bláa Lónið og það þarf að panta með miklum fyrirvara. Annars mæli ég oftast með því að túristarnir skoði Hafnir, brúnna milli heimsálfa, ströndina í Garðinum og Skessuhelli. Svo er líka notalegt að taka göngutúr meðfram sjónum og taka myndir.“