Gert að taka lægsta tilboði í gervigras
Samkvæmt útboðsgögnum og lögum um opinber innkaup er Reykjanesbæ skylt að taka lægsta tilboði sem uppfyllir allar kröfur sem settar eru fram í útboðinu varðandi kaup á nýju gervigrasi í Reykjaneshöll.
Bæjarráð samþykkti nýverið 5-0 að taka tilboði Metatron upp á tæpar 92 milljónir króna í gervigras í Reykjaneshöllina. Í fundargögnum frá þeim tíma sagði: „Í áliti íþróttafélaganna kemur fram að vænlegasti kosturinn er að fjárfesta í sama grasi og er á útivelli félaganna við Reykjaneshöll en þá æfa og spila leikmenn á sama grasi og getur það enn fremur verið hagræðing í þjónustu við báða velli að vera með sama þjónustuaðila.“
Á síðasta fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar var málið tekið fyrir aftur. Þar segir: „Við yfirferð á útboðsgögnum kom í ljós að í lið 8.1. í valforsendum er áréttað að heildartilboðsverð verði eingöngu notað við val á tilboðum í umræddu útboði. Út frá því er ljóst samkvæmt útboðsgögnum og lögum um opinber innkaup að Reykjanesbæ sé skylt að taka lægsta tilboði sem uppfyllir allar kröfur sem settar eru fram í útboðinu, sem er tilboð Altis um gervigras og fjaðurpúða í Reykjaneshöll.“
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkir 4-0 að taka tilboði Altis að upphæð kr. 85.773.017 kr. Bæjarráð afturkallar og ógildir fyrri ákvörðun í sama máli á fundi þann 11. júlí 2024. Helga Jóhanna Oddsdóttir sat hjá við afgreiðslu málsins.