Gert að greiða 65 milljónir í skaðabætur
Skemmtistaðurinn Strikið í Reykjanesbæ þarf ásamt dyraverði staðarins að greiða 65 milljónir króna í skaðabætur vegna líkamstjóns sem maður á sextugsaldri varð fyrir er hann féll niður stiga á skemmtilstaðnum fyrir fjórum árum. Dómur þess efnis féll í Héraðsdómi Reykjaness í gær og eru þetta með hæstu skaðabótum sem dæmdar hafa verið hérlendis.
Dómurinn taldi dyravörðinn og rekstrarfélag staðarins bera ábyrgð á falli mannsins niður stigann. Maðurinn var mjög ölvaður og ætlaði dyravörðurinn að færa hann með valdi út af staðnum. Við fallið hlaut hann sprungu í höfuðkúpu, mar og blæðingu í heilavef, er lamaður í andliti og í vinstra helmingi líkamans, heyrnarskertur á vinstra eyra, þvoglumæltur, þjáist af minnisleysi, einbeitingarskorti og úthaldsleysi. Þá er máltjáningu hans og málskilningi verulega áfátt, samkvæmt því sem fram kemur í frétt 24ra stunda í dag.
Þar segir ennfremur að öryggismyndavél á staðnum hafi náð hluta af atburðarrásinni á myndband. Þeim sönnunargögnum hafi hins vegar verið eytt áður en þau komust í hendur lögreglu. Því byggist málið á framburði vitna.
Haft er eftir Grími Sigurðssyni, lögmanni mannsins, að sök skemmtistaðarins hafi legið í því að stiginn uppfyllti ekki byggingareglugerð. Sök dyravarðarins hafi verið í því fólgin að halda manninum ekki nógu traustum tökum þegar hann ætlaði að bera manninn út af skemmtistaðnum.