Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Geri grein fyrir því hvernig Linde  Gas ehf. þróast til framtíðar í Vogum
Sunnudagur 5. febrúar 2023 kl. 09:38

Geri grein fyrir því hvernig Linde Gas ehf. þróast til framtíðar í Vogum

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur samþykkt samhljóða, með öllum atkvæðum, bókun þar sem bæjarstjórn óskar eftir því að fyrirtækið Linde Gas ehf. geri grein fyrir því hvernig það sjái fyrir sér að starfsemi fyrirtækisins muni þróast til framtíðar í Vogum. Þetta er gert í framhaldi af umsókn fyrirtækisins um að koma fyrir fjórum nýjum tönkum á lóð fyrirtækisins við Heiðarholt 5 í Vogum og um afnot af samliggjandi lóð. Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga ákvað að vísa málefnum Linde Gas ehf. til bæjarstjórnar þar sem ljóst væri að fyrirtækið væri ekki að standa við viljayfirlýsingu um uppbyggingu í Vogum.

„Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið við Vogabraut er svæðið ætlað til iðnaðarstarfsemi og skilgreindar lóðir innan svæðisins ætlaðar til uppbyggingar iðnaðarhúsnæðis. Ekki hefur staðið til að úthluta lóðum á svæðinu til geymslu lausafjármuna eins og umsækjandi ráðgerir. Bæjarstjórn synjar því beiðni Linde Gas ehf. um að fá lóðinni Heiðarholt 3 úthlutað í þeim tilgangi,“ segir m.a. í bókuninni sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn í síðustu viku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá segir einnig í bókun bæjarstjórnar: „Vísar bæjarstjórn erindinu að öðru leyti aftur til skipulagsnefndar og felur henni að óska eftir frekari upplýsingum frá umsækjanda um fyrirhugaða stækkun verksmiðjunnar og möguleg áhrif hennar m.a. á ásýnd svæðisins, hljóðvist og umferð þungaflutninga. Þá óskar bæjarstjórn eftir því að fyrirtækið geri grein fyrir því hvernig það sjái fyrir sér að starfsemi Linde Gas ehf. muni þróast til framtíðar í Vogum og hvort fyrirliggjandi umsókn um stækkun breyti einhverju um þá ákvörðun fyrirtækisins að falla frá fyrri áformum sem lýst er í viljayfirlýsingu þeirri sem fyrirtækið lagði fram og undirritaði samhliða umsókn þess um úthlutun lóðarinnar að Heiðarholti 5 árið 2016. Í þeirri viljayfirlýsingu kom fram að myndu fyrirætlanir fyrirtækisins um uppbyggingu súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju í Vogum ganga eftir þá stæði til að flytja aðra starfsemi fyrirtækisins á aðliggjandi lóðir þannig að starfsemi þess færi að mestu eða öllu leyti fram þar með tilheyrandi fjölda starfa og beins og óbeins ávinnings fyrir bæjarsjóð og samfélagið í Vogum.“