Ekki eru allir á eitt sáttir við þá mynd sem meirihluti skólanefndar Gerðaskóla dregur upp af ástandinu í Gerðaskóla. Vefur Víkurfrétta vitnaði í gærmorgun til mats meirihluta skólanefndar þar sem segir eineltismál og líðan nemenda með öllu óviðunandi í Gerðaskóla. 13,3 % nemenda segjast verða fyrir einelti oftar en 2-3 sinnum í mánuði. Þetta er næstum helmingi hærri tala en á landsvísu og alls ekki hægt að sættast á þessa niðurstöðu. Þetta kemur fram í svari við bréfi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu frá 6. september sl. Þar óskar ráðuneytið eftir upplýsingum um hvernig unnið hafi verið að úrbótum á þeim þáttum skýrslunnar, Mat á skóla- og æskulýðsstarfi í Sveitarfélaginu Garði sem unnin var 2008.
Meirihlutinn, fulltrúar D-lista í Garði, settu fram svarbréf til ráðuneytisins, sem fulltrúar minnihlutans eru síður en svo sáttir við. Á bæjarstjórnarfundi á miðvikudagskvöld bókaði N-listinn í Garði:
„N listinn lýsir vanþóknun sinni með vinnubrögð meirihluta D lista í skólanefnd þar sem ekki var tekið tillit til óska og athugasemda annarra fulltrúa í nefndinni en D lista þegar umsögn var samin fyrir skólanefndina. Því voru L og N listi knúnir til að senda ráðuneytinu sérstakt bréf sem lýsir þeirra sjónarmiðum. Vinnubrögðin eru ólýðræðisleg og ófagleg að hálfu D lista“.
En það eru fleiri umsagnir en frá meirihluta D-listans og sú sem minnihlutinn sér sig knúinn til að senda ráðuneytinu. Umsögn skólastjóra og skólaráðs um sama mál hefur einnig verið lögð fram. Hana má lesa í heild sinni hér að neðan:
Mat á skóla- og æskulýðsstarfi í Sveitarfélaginu Garði
Vinna að úrbótum eftir að skýrslan var birt haustið 2008
Eftir að skýrsluhöfundar höfðu kynnt skýrsluna fyrir starfsfólki, foreldrum og bæjaryfirvöldum haustið 2008, fór skólastjóri yfir skýrsluna og tók saman ábendingar í skýrslunni og skipti þeim í átta meginkafla. Þessir meginþættir voru; bæta þarf starfsandann og efla liðsheildina, breyta viðhorfi foreldra, bæta skólabraginn, skoða betur eineltismál, auka fjölbreytni í kennsluháttum, skoða stjórnun skólans, skoða viðhorf nemenda og bæta aðstöðuna í skólanum.
Skólastjórnendur og matsteymi komu síðan með tillögur að úrbótum sem væru til þess fallnar að mæta þessum ábendingum sem fram komu í skýrslunni. Samin var sérstök tímasett aðgerðaráætlun sem náði frá hausti 2008 til haustsins 2009 (sjá fylgiskjal 1) og þær lagðar fyrir skólanefnd í desember 2008. Tillögurnar að úrbótum voru ekki tæmandi og fyrst og fremst hugsaðar til að hægt væri að koma einföldum atriðum fljótlega í framkvæmd og síðan væri hægt að bæta við atriðum á listann. Þetta skólaár var unnið markvisst að þessum fyrrnefndu þáttum.
Jafnhliða þessu voru lagðar fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk viðhorfskannanir samkvæmt sjálfsmatsáætlun skólaársins 2008-2009. Niðurstöður þeirra bentu til þess að verulegur viðsnúningur hefði orðið til hins betra og mjög margt áunnist í þeim atriðum sem nefnd voru til sögunnar að bæta þurfti í skýrslunni um Mat á skóla-og æskulýðsstarfi í Sv. Garði (sjá fylgiskjal 2,3 og 4).
Í byrjun árs 2010, þann 21. janúar, var eftirfarandi bókað í skólanefnd: „Skólanefnd mælir með þvi að teymið sem sá um mat á skólastarfi í Garði, verði fengið til að leggja aftur fyrir foreldrakönnun. Skólastjóra falið að hafa samband við viðkomandi.“ Skólastjóri var síðan í tölvusambandi við Ingvar Sigurgeirsson sem var tilbúinn að skoða málið en ekkert varð úr, þar sem endanlega ákvörðun var ekki tekin hjá skólanefndinni, m.a vegna þess að ljóst var að slík athugun myndi hafa kostnað í för með sér. Ný skólanefnd var skipuð eftir kosningar í júní 2010 og vildi fara aðrar leiðir í að skoða skólastarfið.
Þar sem ekki tókst að fá matsteymið til að gera samanburðarkönnun var áherslan lögð í auknu mæli á að greina niðurstöður úr sjálfsmatskönnunum en í þeim er komið inn á alla þá þætti sem Ingvar og matsteymið bentu á. Eins og sést á niðustöðum má lesa þróun mála síðustu ára (fylgiskjöl 2,3 og 4) og eru einnig birtar á heimasíðu skólans
Niðurstöður úr viðhorfskönnunum hafa síðan verðið greindar og tilgreinar í sjálfsmatskýrslu skólans, þar sem gerðar eru tillögur að úrbótum fyrir núverandi skólaár (sjá fylgiskjal 5 og http://www.gerdaskoli.is/Sjalfsmat/Skyrsla/).
Skýrslan verður síðan til umfjöllunar í skólanum, hjá skólaráði og skólanefnd og í framhaldi af því verður unnið markvisst að umbótarþáttum í vetur.
Pétur Brynjarsson skólastjóri
Umsögn skólaráðs
Starfsandi og liðsheild í starfsmannahópnum:
Ljóst er að skólaárið 2007-2008 hefur að ýmsu leyti verið mjög erfitt. Mikil forföll hafa vafalítið valdið miklu álagi í skólanum og einnig virðist sem starfsmannahópurinn hafi skiptst í fylkingar. Í skýrslunni um Mat á skóla-og æskulýðsstarfi í Sveitarfélaginu Garði er vísað til starfsmannakönnunar þar sem 58% starfsmanna segjast frekar sjaldan eða næstum aldrei styðja hvern annan og hvetja með opinskáum hætti (hrósa).
Í sambærilegri könnun sem fór fram í apríl á þessu ári kemur fram að hlutfall þeirra sem svara frekar sjaldan eða næstum aldrei hefur lækkað niður í 22% og 10% starfsmanna árið 2011 töldu að einelti eða stríðni vera hluta af samskiptum margra starfsmanna skólans og þar af leiðandi svöruðu 90% starfsmanna frekar sjaldan eða aldrei (Sjá fylgiskj.4).
Einnig má benda á að 88% starfsmanna svara því að þeim líði alltaf vel í vinnunni (sambærilegar tölur frá 2006 eru 45%). Þá má einnig benda á myndir nr. 15, 30 og 41 (sjá fylgiskj.4)
Skólaráð telur að starfsandinn í skólanum í dag sé mjög góður og hafi tekið miklum breytingum til hins betra frá því að athugunin var gerð vorið 2008.
Verkskipting milli stjórnenda:
Formleg verkskipti milli stjórnenda eru tilgreind í skólanámskránni (sbr. kafli 5.7, http://www.gerdaskoli.is/Skolanamskra/Almennur_hluti/). Skólaárið 2008-2009 var einn stjórandinn í leyfi og tók aftur við starfinu skólaárið 2009-2010. Nú er komin dágóð reynsla á samstarf þeirra þriggja stjórnenda sem nú eru við störf og í byrjun starfsárs í ágúst hafa starfslýsingarnar verið til endurskoðunar og á næstu vikum verða nýjar starfslýsingar lagðar fram til samþykktar. Þær verða síðan kynntar og opinberaðar í skólanámskrá skólans.
Upplýsingaöflun til starfsfólks hefur verið stórbætt. Allir starfsmenn skólans (að undanskildum skóliðum) hittast nú í upphafi dags frá kl. 8:00 – 8:15, þar sem farið er yfir dagsskipulagið og nauðsynlegum upplýsingum sem þegar liggja fyrir komið til starfsfólks. Skólaliðar eru við vinnu á sama tíma en formlegur fundur skólatjóra og skólaliða er einu sinni í viku, á miðvikudögum kl. 10:45. Þar er farið yfir vikuskipulagið og komið til þeirra nauðsynlegum upplýsingum. Jafnframt er svokölluðum „yfirliða“ (sá starfsmaður sem er í forsvari fyrir skólaliðana) tilkynnt um þau atriði sem teljast þess eðlis að ekki þoli bið og honum er falið að koma þeim upplýsingum til skólaliðanna sem vinna undir hans stjórn.
Í upphafi skólaárs er haldinn sérstakur fundur með nýliðum.
Skólastjóri tók þá stefnu þegar hann var ráðinn til skólans við upphaf skólaársins 2008-2009 að haga matarhléi sínu þannig að hann gæti verið með nemendum í frímínútum og matarhléi.
Jafnframt má benda á myndir 2a og 2b, 30 í þessu sambandi.
Skólaráð telur að skýr verkaskipting komi fram í starfslýsingum stjórnenda sem birtar eru í skólanámskrá. Ljóst er hins vegar að endurskoðun þeirra er þörf og að mikilvægt sé að hraða þeirri vinnu, þannig að öllum sé hún ljós. Einnig hefur komið fram að upplýsingaflæði til starfsfólks hefur verið stórbætt með föstum upplýsingafundum. Aðgangur allra í skólanum að skólastjórnendum er í dag mjög góður.
Forfallakennsla:
Skólaárið 2007-2008 var eins og áður sagði um margt sérstakt. Samkvæmt athugun í skráningarkefi skólans eru skráðir samtals 293 veikindadagar (veikindi og veikindi vegna barna). Sem hluti af heild voru þessi forföll um 6,5% af heildartímamagni skólaársins 2007-2008. Á síðasta skólaári eru skráðir 209 veikindadagar og sem hluti af heild eru það um 4,8%. Þannig að þetta umrædda ár hefur verið nokkuð óvenjulegt og mikið um forföll sem endurspeglast í umsögnum starfsmanna þegar skýrsluhöfundar tóku viðtölin.
Veikindaforföll sem af eru af þessu skólaári eru um 3,3% af heildinni en reynslan sýnir að þau eru minnst á haustin og vorin.
Hins vegar má ljóst vera að þessi veikindaforföll skiptast misjafnlega niður á kennarahópinn og það er hlutverk stjórnenda að ræða það við vikomandi starfsmenn.
Skólaráð telur að skólaárið 2007-2008 hafi verið ákaflega sérstakt og óvenjulegt með tilliti til forfalla. Tölur frá síðasta skólaári sýna verulega lækkun á heildarforföllum og nýjar tölur það sem af er á þessu skólaári lofa góðu um framhaldið. Viðeigandi ráðstafanir er varða forföll einstakra starfsmanna eru í höndum skólastjóra sem ber ábyrgð á aðgerðum til að koma í veg fyrir óeðlilegar fjarvistir samkvæmt starfsmannastefnu sveitarfélagsins.
Einelti og líðan nemenda:
Í sjálfsmatsáætluninni var líðan nemenda í 1. - 3. bekk könnuð (sjá fylgiskj. 6). Niðurstöður sýndu að nánast öllum líður vel eða nokkuð vel í skólanum. Umsjónarkennurum voru sendar niðurstöður sem þeir notuðu til umræðna á bekkjarfundum um líðan við ýmis konar aðstæður.
Einnig kemur fram í nemendakönnun 2011 að 95% nemenda í 6. - 10. bekk líði alltaf eða frekar oft vel í skólanum (sjá fylgiskj. 3) og einnig má benda á niðurstöður um samskipti í þessari könnun (sjá myndir 4, 9 og 20).
Það er okkar mat að vísbendingar úr könnunum gefi til kynna að almennt líði nemendum vel í skólanum. Skólaráð leggur hins vegar áherslu á að markmiðið skal ávallt að vera það að öllum nemendum líði vel og það er verkefni umsjónarkennara og starfsfólks skólans í samstarfi við forráðamenn að vinna markvisst að ná því markmiði.
Skólinn er þátttakandi í Olweusaráætlunni gegn einelti og fylgir því kerfi. Gerðar hafa verið staðlaðar kannanir venjulega í nóvembermánuði og niðurstöður koma eftir áramót, í febrúar. Einnig eru spurningar í viðhorfskönnunum nemenda og foreldra sem koma inn á einelti og eineltismál.
Í nokkur ár hefur eineltisteymi verið starfandi innan skólans sem hefur unnið ötullega að þessum málum. Teymið hefur sett upp skipulag sem skyldar umsjónarkennara að sinna ákveðnum tímasettum þáttum.
Bæði nemendur og foreldrar hafa verið hvattir til að tilkynna til skólans, hafi þeir minnsta grun um einelti og eru allar slíkar tilkynningar teknar alvarlega og fara ýmist til vinnslu hjá umsjónarkennara eða eftir atvikum til eineltisteymisins og nemendaverndarráðs.
Niðurstöður úr síðustu eineltiskönnun hafa gefið okkur mikilvægar vísbendingar um umfang eineltis, hvernig og hvar það birtist. Unnið hefur verið markvisst í samræmi við þessar niðurstöður. Hins vegar hefur heildarfjöldi þeirra nemenda sem telja sig hafa orðið fyrir einelti verið alltof hár að okkar mati, eða frá 8 – 13 % nemenda í 4. - 10. bekk síðustu árin.
Við bindum miklar vonir við að mikil og markviss vinna í forvörnum í vetur muni skila árangri sem mun koma í ljós þegar eineltiskönnunin verður lögð fyrir í nóvember. Eitt af þremur átaksverkefnum vetrarins er vinna sem snýr að líðan og einelti. Komi hins vegar í ljós svipaðar niðurstöður úr eineltiskönnuninni eftir áramót og verið hafa á síðustu árum, er ljóst að endurmeta þarf alla verkferla og starfið í heild sinni.
Skólaráð telur að kannanir gefi vísbendingar um að nemendum líði almennt vel í skólanum. Skólaráð leggur til að áfram verði unnið markvisst og af fullum krafti að útrýma einelti í skólanum. Kannanir í vetur munu gefa vísbendingar hvort sú vinna er að skila tilætluðum árangri.
Kennsluhættir og skólabragur:
Ábendingar sem komu fram í skýrslunni um Mat á skóla- og æskulýðsstarfi og lutu að því að breyta skólabragnum voru flestar settar í framkvæmd skólaárið 2008-2009. Það sýndi sig strax að skólabragurinn tók miklum stakkastiptum til hins betra. Nægir þar að nefna að nú er skólinn opnaður kl. 7.30 og kennsla hefst kl. 8.15. Allar kennslustofur eru opnar og skólaliðar sem taka á móti börnunum segja að yfirbragið sé til fyrirmyndar. Gæslan og eftirlit hefur verið bætt á göngum og í mötuneyti og skólastjóri lítur við í frímíntútum og í hádegi. Þar að auki borða tveir fullorðnir með nemendum í hádeginu.
Auðvitað hjálpaði stórbætt og rýmri aðstaða til í þessu tilliti en almennt má segja að skólaráð sé ánægt með það hvernig skólabragurinn hefur þróast til hins betra.
Skólinn hefur haft það að leiðarljósi um árabil að leggja áherslu á vera skóli án aðgreiningar og leitast við að einstaklingsmiða námið. Skólinn hefur aðlagað starfið að fötluðum nemendum og nemendnum með sérþarfir. Einnig má benda á að um árabil hefur verið samstarf milli Barnaverndar Reykjavíkur, fósturforeldra í Garðinum og Gerðaskóla um að taka á móti nemendum sem hafa flosnað úr námi. Þetta samstarf hefur verið til fyrirmyndar.
Í skýrslunni um Mat á skóla-og æskulýðsstarfi kemur fram að kennsluhættir í skólanum séu um margt fjölbreyttir og einkum í yngri bekkjunum. Það er mat skólaráðs að svo sé enn. Ferðakerfið hefur verið þróað betur síðustu ár, en í því felst að nemendum í unglingadeildinni er skipt upp í hópa í fjórum greinum til þess að mæta betur þörfum einstaklinganna. Þá hefur verið lögð sérstök áhersla á umhverfismennt og útikennslu í öllum árgöngum skólans. Kennarar skólans fóru í námsferð til Danmerkur til þess að kynna sér útikennslu. Í kjölfarið var myndað sérstakt útikennsluteymi sem skipulagði og sá um framkvæmdina. Allir kennarar skólans fóru með nemendahópa í útikennslu, þar sem viðfangsefni námsgreinanna voru útfærð í nágrenni skólans, með það fyrir augum að stuðla að aukinni virkni nemenda á hlutlægan hátt. Þá má einnig nefna svokallaða áhersludaga og þemadaga þar sem nemendahópnum er skipt upp og nemendur úr mismunandi árgöngum vinna saman að ákveðnum viðfangsefnum. Þetta eru nokkur dæmi um hvernig skólinn mætir þeirri leið sem nefnd er í skýrslunni um Mat á skóla-og æskulýðsstarfi og orðað er á eftirfarandi hátt: „Hér er sérstaklega mælt með verkefnum sem reyna á þverfaglega samvinnu kennara og fela í sér meiri virkni nemenda, t.d. sjálfstæða upplýsingaleit þeirra, úrvinnslu, samræður, fjölbreytta skýrslugerð (þar sem t.d. er unnið með ólíka miðla) og tengsl við samfélagið.“
Skólaráð fagnar stórbættri aðstöðu í skólanum. Vísbendingar í könnunum benda til þess að skólabragurinn hafi tekið miklum stakkaskiptum síðustu árin og fulltrúar kennara og starfsmanna í skólaráðinu staðfesta það. Skólaráð sér dæmi þess að reynt sé að vinna verkefni sem reyna á þverfaglega vinnu kennara og sem fela í sér meiri virkni nemenda. Nægir þar að benda á uppbrot i kennslunni, útikennslu og fleiri þætti. Skólaráðsfulltrúar geti hins vegar ekki metið það hvort þessir þættir séu fullnægjandi miðað við það sem aðalnámskrá segir til um. Væntanlega mun það koma betur í ljós, því í sjálfsmatsáæltun vetrarins er gert ráð fyrir að meta kennsluhætti á yngra stigi sem og skipulag sérkennslunnar. Samkvæmt sjálfsmatáætlun næsta árs er fyrirhugað að meta kennsluhætti á eldra stigi og gert er ráð fyrir að fá sérfræðinga frá Fræðsluskrifstofunni.
Samstarf skólans við foreldra:
Fram kemur í skýrslunni um Mat á skóla-og æskulýðsstarfi að of stór hópur foreldra sé neikvæður í garð skólans. Það er mat skólaráðsfulltrúa að sá hópur hafi minnkað verulega, síðustu þrjú ár. Vísbendingar um slíkt má finna í niðurstöðum í foreldrakönnun, sbr. mynd 27 þar sem um helmingur foreldra telur að viðhorf þeirra til skólans hafi batnað s.l. 2 - 3 árin (sjá fylgiskj. 2). Einnig má benda á mynd 16 í sömu könnun þar sem allir foreldrar sem tóku þátt í könnuninni segja að samstarf sitt við kennara skólans hafi verið annað hvort gott eða mjög gott. Það virðist einnig vera tilfinning starfsmanna, sbr. mynd 47 í starfsmannkönnun en þar telja 75% starfsmanna að viðhorf foreldra til skólans hafi batnað eða batnað mikið síðustu misseri.
Skólinn hefur reynt eftir fremsta megni að nýta sér heimasíðu skólans með því að hafa þar ávallt jákvæðar og lýsandi fréttir af skólastarfinu. Einnig eru sendar tilkynningar heim í gegnum Mentor þar sem vakin er athygli á heimasíðunni eða almennar tilkynningar um viðburði og annað sem talin er ástæða að foreldrar þurfi að fá upplýsingar um. Fréttabréf voru gefin út á árum áður en tekin var ákvörðun að hvíla þá útgáfu, með tilliti til sparnaðar og einnig meðvituð ákvörðun að spara pappírsaustur í samræmi við stefnu skólans í umhversfismálum.
Foreldrafélag er starfandi við skólann sem hefur stjórn og tvo bekkjarfulltrúa í hverjum bekk. Foreldrafulltrúar taka þátt í störfum skólanefndar og skólaráðs. Foreldrafélagið sinnir hefðbundum verkefnum og á gott samstarf við skólann. Á heimasíðu skólans er flipi sem ætlaður er fyrir foreldrafélagið og er það stefna félagsins að nýta sér þann möguleika betur í framtíðinni.
Það er hins vegar skoðun skólaráðsmanna að nauðsynlegt sé að virkja fleiri foreldra til starfa og vinna markvisst í því að fá foreldra til að taka meiri þátt í skólastarfinu. Þetta verður eitt af þremur átaksverkefnum vetrarins.
Skólaráð telur að margt bendi til þess að viðhorf foreldra til skólans hafi batnað. Upplýsingaflæði til foreldra er sífellt að aukast með meiri netnotkun. Skólaráð telur hins vegar að auka þurfi beina þátttöku foreldra í skólastarfinu og skólinn og samtök foreldra þurfi að gera saman áætlun hvernig það megi takast.
Sálfsmat og skólaþróun:
Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 eru ákvæði um innra mat grunnskóla. Á heimasíðu skólans er flipi um sjálfsmat. Undir það fellur langtímaáætlun, áætlun skólaársins og sjálfsmatsskýrsla síðasta skólaárs (http://www.gerdaskoli.is/Sjalfsmat/).
Sjálfsmatsskýrslan var tilbúin þann 15. júní s.l. Starfsmenn skólans unnu úr niðurstöðum viðhorfskannanna á starfsdögum s.l. vor þar sem farið var yfir alla þá þætti sem sjálfsmatsteymið í skólanum taldi að vinna þyrfti vel að skólaárið 2011-2012. Á starfsdögum í ágúst var aftur farið í svipaða vinnu með það fyrir augum að forgangsraða áhersluatriðum sem gætu leitt til umbóta. Eftir standa þrír meginþættir. Í fyrsta lagi að stórefla samstarf við foreldra í víðum skilningi. Í öðru lagi að setja aukinn kraft og aðgerðaráætlun til þess að efla lestur og lesskilning. Í þriðja lagi að vinna áfram vel að eineltismálum og almennri líðan hjá nemendum. Umbótaáætlanir eru nú í mótun og hluti þeirra komnar í vinnslu.
Sjálfsmatsskýrslan hefur verið lögð fram í skólaráði og skólanefnd og leitað eftir umsögnum og tillögum.
Þróunarverkefni síðustu ára eru komin í ákveðinn farveg. Umhverfishópur (teymið) heldur utan um umhverfisfræðsluna og útikennsluna. Annað teymi sér um eineltismálin. Segja má að þetta séu helstu stóru verkefnin sem eru í gangi í skólanum.
Eitt stórt verkefni er nú í undirbúningi. Síðustu tvö ár hefur starfsmannahópurinn verið að kynna sér helstu strauma í uppeldisstefnum og þá einkum þær sem eru í gangi hér á svæðinu. Skólastjórnin tók að lokum ákvörðun í vor um að PBS hugmyndafræðin (stuðningur við jákvæða hegðun) myndi henta þessu skólasamfélagi best. Undirbúningur hefur nú staðið yfir í byrjun skólaárs og innleiðingarferlið hefst um leið og 85% starfsmanna greiða atkvæði með því að taka það upp í skólanum. Niðurstaðan mun liggja fyrir í vikulokin.
Allt innleiðingarferlið mun taka fjögur til fimm ár og mun ná til alls skólasamfélagsins.
Það er mat skólaráðs að PBS sé það stórt verkefni og mikil vinna að ekki sé hægt að vera með önnur þróunarverkefni í gangi samtímis. Því sé skynsamlegt að halda utan um önnur verkefni eins og verið hefur og mikilvægt að starfsfólk sé samstíga í því að láta innleiðingu uppeldisstefnunnar hafa forgang næstu fimm árin í þeirri viðleitni að vel takist til.
Skólaráð telur að framkvæmd sjálfsmats skólans sé til fyrirmyndar og allar upplýsingar um það eru aðgengilegar á heimasíðu skólans. Tilraunir eru nú gerðar í fyrsta skipti til þess að nýta sér það til fullnustu og með því að setja í gang umbótaáætlanir sem miða að því að mæta þeim þáttum þar sem umbóta er þörf. Skólaráð telur að þau þróunarverkefni sem skólinn hefur unnið að síðustu árin séu mikilvæg og að þeim verði áfram unnið ötullega. Skólinn hefur hins vegar markað þá stefnu að PBS-uppeldisstefnan verði í forgangi á næstu árum þannig að mikilvægt er að ekki séu of mörg þróunarverkefni í gangi.
Garði 5. októtber 2011.
Guðríður Brynjarsdóttir fulltr. kennara
Magnús Guðmundsson fulltr. kennara
Drífa Björnsdóttir fulltr. alm. starfsm.
Bryndís Knútsdóttir fulltr. grenndarsamf.
Herborg Hjálmarsdóttir fulltr. foreldra
Sóley Gunnarsdóttir fulltr. foreldra
Halldór Gísli Ólafsson fulltr. nemenda
Þóra Lind Halldórsdóttir fulltr. nemenda
Pétur Brynjarsson skólastjóri