Gera hinum aldraða kleift að búa eins lengi heima og unnt er
„Miðflokkurinn fagnar því að leitast er við að betrumbæta þjónustu við aldraða en það er mjög í anda stefnu flokksins. Þess má geta að Miðflokkurinn á Alþingi lagði fram breytingartillögu við fjárlög fyrir 2019 um að efla heimahjúkrun og heimaþjónustu aldraða. Því miður var tillagan felld af ríkistjórnarflokkunum. Með því að samþætta þessar þjónustur þá gerum við öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði. Það er mjög jákvætt að einn aðili er gerður ábyrgur fyrir framkvæmd þessarar þjónustu sem mun sinna bæði hjúkrun, aðhlynningu og aðstoð við heimilishald,“ segir í bókun Margrétar Þórarinsdóttur bæjarfulltrúa Miðflokksins í Reykjanesbæ á fundi bæjarstjórnar nú í vikunni. Þar var hún að bregðast við skýrslu vinnuhóps vegna samstarfs Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og velferðarsviðs Reykjanesbæjar um samstarf/samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í Reykjanesbæ.
Margrét þakkaði vinnuhópnum vel unnin störf og sagði skýrslu hans áhugaverða og vel unna.
„Grundvallaratriði öldrunarþjónustu er það að gera hinum aldraða kleift að búa eins lengi heima og unnt er. Stofnanaþjónustan er langdýrasti kosturinn og því hagnaður þjóðfélagsins að finna önnur úrræði eins lengi og mögulegt er. Þrátt fyrir heilsubrest og hækkandi aldur á að gera hinum aldraða kleift að halda sem lengst áfram að vera hann sjálfur þ.e.a.s. að hinn aldraði hafi val á áhrif á þá þjónustu sem honum er veitt. Þjónustan við hinn aldraða þarf því að vera sem fjölbreyttust og í sem bestu samræmi við þarfir hans og óskir. Með því getum við búið hinum aldraða gott ævikvöld,“ segir Margrét jafnframt í bókun sinni.