geoSilica sextánfaldar framleiðsluna
-Kísilsteinefni geoSilica seld hjá Amazon í Bandaríkjunum
Nýsköpunarfyrirtækið geoSilica á Ásbrú er að leggja lokahönd á sextánfalda stækkun á framleiðslu fyrirtækisins, sem staðsett er á Hellisheiði. „Árið byrjar mjög vel hjá okkur, við höldum áfram að slá met í sölutölum og náðum við metsölu núna í janúar. Við viljum anna aukinni eftirspurn viðskiptavina okkar og var því ákveðið að fara út í þessar framkvæmdir,“ segir Ágústa Valgeirsdóttir, verkefna- og viðskiptaþróunarstjóri geoSilica.
Fyrirtækið hefur nú komið upp 32.000 lítra biðtönkum sem tryggir fyrirtækinu næga framleiðslugetu bæði fyrir íslenskan og erlendan markað. Aðlaga þurfti tankana að framleiðsluháttum geoSilica og segir Ágústa margar áskoranir fylgja stækkuninni, sérstaklega þar sem um nýja tækni sé að ræða sem ekki hefur verið notuð áður í þessum tilgangi. „Ég tel að íslenska veðrið hafi verið stærsta áskorunin þar sem biðtankarnir eru staðsettir fyrir utan húsnæði okkar á Hellisheiði.“
Byrjað er að selja kísilsteinefni geoSilica hjá Amazon í Bandaríkjunum og er fyrirtækið í viðræðum við nokkra aðra aðila um dreifingu erlendis. „Við teljum það styrk fyrirtækisins að geta annað eftirspurn á erlendum mörkuðum en það er þekkt að mörg íslensk sprotafyrirtæki flaska á því,“ segir Ágústa.