Gengu í 11 tíma með sjúkrabörur
Unglingadeildin Klettur hjá björgunarsveitinni Suðurnes gengu Reykjanesbrautina endilanga og gott betur í gær en þau eru á leið á Landsmót unglingadeilda Björgunarsveita á Dalvík eftir þrjár vikur.
Ungliðarnir gengu með níðþungar sjúkrabörur alla leiðina en hópurinn lagði af stað um morguninn frá samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík. Hópurinn hafði safnað áheitum fyrir gönguna og vildu þau koma sérstökum þökkum áleiðis til íbúa Reykjanesbæjar sem veittu þeim góðar viðtökur.
Rúmlega 20 göngugarpar tóku þátt í göngunni og var börunum aldrei sleppt, ekki einu sinni þegar fólk þurfti að létta á sér. Ferðalangar komu svo að húsnæði Björgunarsveitarinnar Suðurnes rúmlega 9 í gærkvöldi, sjálfsagt með lúna fætur eftir langa og stranga göngu.
VFMyndir: Eyþór Sæmundsson