Gengu fram á jólasvein á Sveifluhálsi
Gönguhópur sem var á ferð um Sveifluháls í gær sá sér til mikillar undrunar jólasvein sitja uppi á einni hæðinni.
„Hann horfði á okkur um stund, tók smá hopp, veifaði og lét sig svo hverfa á bak við hæðina. Hvað hann var að gera þarna á þessum árstíma höfum við ekki hugmynd um en óneitanlega var þetta furðuleg sjón. Við urðum ekki vör við hann eftir þetta,“ sagði einn göngufélaginn í samtali við Víkurfréttir.
Meðal annarra í hópnum var Helma Gunnarsdóttir sem náði þessi mynd af sveinka þar sem hann sat á hæðinni.
Sagt hefur verið að jólasveinanir búi í Esjunni en þar hefur aldrei neinn orðið var við þá. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir eiga ekki heima þar heldur á Sveifluhálsi eins og þessi mynd sannar.