Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gekk berserksgang í Grindavík
Sunnudagur 3. júlí 2005 kl. 10:25

Gekk berserksgang í Grindavík

Laust eftir klukkan 20:30 í gærkvöldi var lögregla kölluð að versluninni Báru í Grindavík vegna ölvaðs og æsts manns sem hafði  komið inn í verslunina. Hafði maðurinn þá stuttu áður gengið berserksgang inni á skemmtistaðnum Lukku-Láka. Þar hafði hann brotið mörg glös og haft í hótunum við starfsfólk. Maðurinn var handtekinn og fékk að gista fangaklefa lögreglunnar.

Eftir miðnætti og fram undir morgun var töluverður erill hjá lögreglunni. Þrír til viðbótar fengu að gista fangaklefa lögreglunnar vegna ölvunar og óspekta. Af þeim voru tveir handteknir á skemmtistaðnum Strikinu Casino í Keflavík en sá þriðji á skemmtistaðnum Paddy's en sá hafði ásamt félaga sínum ráðist á dyraverði staðarins.

Auk þessara óláta var tilkynnt um eina líkamsárás sem hafði átt sér stað á skemmtistaðnum Strikinu í Keflavík.

Þá var tilkynnt um innbrot í bifreið sem stóð á bifreiðastæðinu við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar. Rúða hafði verið brotin í bifreiðinni en engu þó stolið.

Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir að nota ekki bílbelti við aksturinn.  Tveir voru boðaðir með bifreiðar sínar í skoðun, vegna vanrækslu á að færa þær til skoðunar.  Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, sá er hraðar ók var mældur á 115 km hraða, leyfður hraði 90 km.

Vf-mynd úr safni
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024