Geðrækt er eins og hver önnur líkamsrækt
Breyttar áherslur eru í geðheilbrigðisþjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Þar hefur geðheilbrigðisþjónusta við íbúa Suðurnesja verið stóraukin með því að komið var upp þverfaglegu teymi við heilsugæsluna, sem fékk það verkefni að auka þjónustu í heimabyggð, styðja fólk heima og ýta undir bjargráð í nærumhverfinu.
Hrönn Harðardóttir er yfirhjúkrunarfræðingur geðsviðs HSS. Hún er með meistaragráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á geðheilbrigðisþjónustu. Víkurfréttir tóku Hrönn tali og fengu hana til að útskýra þá þjónustu sem nú er í boði og hafa sett Suðurnes í fararbrodd í þessum málaflokki á landsbyggðinni. Starfið sem unnið er á HSS hefur vakið athygli annarra heilbrigðisstofnana sem hafa sýnt því módeli sem unnið er eftir á Suðurnesjum áhuga.
Forvarnar- og meðferðarteymi barna
Sálfélagsleg þjónusta hefur verið starfrækt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja síðan 2005. Á heilsugæslu HSS er starfandi forvarnar- og meðferðarteymi barna, sem er teymi sérfræðinga sem veitir börnum og fjölskyldum þeirra ráðgjöf og meðferð. Teymið vinnur í nánu samstarfi við annað fagfólk innan og utan stofnunarinnar. Markmiðið er að veita börnum og foreldrum ráðgjöf og meðferð og grípa inn í á fyrstu stigum vandans. Þjónustan miðast við aldurinn 0-18 ára. Þjónustan hefur smátt og smátt verið aukin. Þess má geta að tilvísanir í teymið voru ríflega 100 fleiri árið 2011, en árið á undan. Í forvarnar- og meðferðarteymi barna hafa því myndast biðlistar og er bið nú um 6-8 vikur. Þar er verið að fjölga starfsfólki, enda þörfin brýn.
Geðteymi fyrir fullorðna
Það sem er nýtt hjá HSS er að á síðasta ári byrjaði stofnunin með þjónustu fyrir fullorðið fólk með geðraskanir og sett var upp göngudeildarþjónusta fyrir fullorðna.
Í febrúar á síðasta ári var fyrsta skrefið tekið í átt að aukinni þjónustu við einstaklinga með geðræna erfiðleika, 18 ára og eldri, með stofnun Geðteymis og Samráðsteymis milli Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, félagsþjónustu sveitarfélaganna og geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss.
- Hvernig eruð þið að ná til þessa fólks?
„Það var farið af stað með grunnvinnu að tala við alla aðila sem eru að vinna með þessu fólki, s.s. félagsþjónustuna, Björgina og heimahjúkrun. Hjá þessum aðilum fengust upplýsingar um þá aðila sem taldir voru í þörf fyrir þjónustu geðteymis. Við höfum haft frumkvæði að setja okkur í samband við þetta fólk, kannað ástand þess og boðið því þjónustu okkar.
Það hefur verið mikil ásókn í þjónustu okkar og margar tilvísanir borist til okkar, t.d. frá læknum á heilsugæslunni, heimahjúkrun, félagsþjónustu, endurhæfingarúrræðum, öðrum heilbrigðisstofnunum, en einnig leita einstaklingar sjálfir til okkar“.
Hrönn segir að geðteymið starfi eftir hugmyndafræði valdeflingar, þar sem meðferðarvinna er unnin í samvinnu við skjólstæðinga og stuðlar að aukinni þekkingu á sjúkdómseinkennum. Þannig er reynt að efla bjargráð skjólstæðinga og hjálpa þeim að ná tökum á eigin lífi. Markmiðið er að færa geðheilbrigðisþjónustu í heimabyggð og auka aðgengi og samstarf milli þjónustuaðila, en ekki síst að auka lífsgæði neytandans.
Geðteymið starfar í náinni samvinnu við geðsvið Landspítala Háskólasjúkrahúss, Björgina; geðræktarmiðstöð Suðurnesja og félagsþjónustuna á svæðinu.
Göngudeildarþjónusta
„Með stofnun geðteymis er hægt að bjóða upp á göngudeildarþjónustu, sem nær til einstaklinga með alvarlegar geðraskanir, en sinnir einnig bráðatilfellum og áfallahjálp.
Teymið sinnir fólki sem þarf langtíma stuðning,“ segir Hrönn. Hún segir að teyminu á HSS sé ætlað að styðja við bakið á fólki á sínu heimasvæði, þannig að það þurfi ekki að sækja alla þjónustu til Reykjavíkur. Margir skjólstæðinga deildarinnar hafi sinn geðlækni í Reykjavík en geti sótt aukinn stuðning á HSS.
„Pétur Hauksson geðlæknir kemur í Björgina einu sinni í viku og fólk hefur leitað til hans í viðtöl, einnig hefur geðteymið getað vísað fólki til hans. Við erum að auka þjónustu við þann hóp og einnig aðra á svæðinu sem ekki hafa verið að fá eins mikla hjálp og hafa leitað þegar allt er komið í óefni til Reykjavíkur. Einnig er náin samvinna við lækna heilsugæslu HSS“.
Hrönn segir teymið fyrst og fremst einblína á veikasta hópinn á svæðinu en einnig komi upp bráðamál sem þurfi að sinna. Hún segir að teymið fundi vikulega þar sem ný mál séu tekin til skoðunar. Helst séu það vægari mál sem þurfi að vísa frá. Það séu þá mál sem fólk geti fengið úrlausn á með því að fá tíma hjá sálfræðingi á stofu utan sjúkrahússins. Einnig hefur verið boðið upp á HAM námskeið (hugræna atferlismeðferð) sem tveir sálfræðingar HSS hafa haldið og er það samskonar námskeið og haldin hafa verið um árabil á Landspítala við mikla aðsókn. Þangað er hægt að vísa þátttakendum til að læra og þjálfast í að nota aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar til að efla geðheilsu sína.
Fordómar gagnvart geðsjúkdómum
Fordómar gagnvart geðsjúkdómum eru ennþá til staðar og dæmi eru um að fólk kjósi frekar að fara til Reykjavíkur eftir þjónustu og falla þar í fjöldann.
Hrönn segir að það sé líka vaxandi hópur sem finnst það styrkur að sækja þessa þjónustu og vinna í sínum málum. „Fólk horfir á þetta sem sjálfsrækt og það verða vonandi fleiri sem horfa þannig á málið. Öll þurfum við á stuðningi að halda einhvern tímann á lífsleiðinni og það er ekkert öðruvísi með geðsjúkdóma en aðra sjúkdóma“.
Suðurnes í fararbroddi í geðheilbrigðisþjónustu
Suðurnes eru í fararbroddi á landsbyggðinni þegar kemur að þessari geðheilbrigðisþjónustu. Módelið sem unnið er eftir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er þekkt erlendis og hefur víða á Norðurlöndunum verið unnið eftir því þar í tvo til þrjá áratugi. Miklar áherslubreytingar eiga sér stað í geðheilbrigðismálum í dag og nú er verið að afstofnanavæða málaflokkinn, ef svo má að orði komast. Með því eru áherslurnar færðar frá stofnununum og út í samfélagið. Það eru meiri lífsgæði fyrir einstaklinga sem glíma við geðvandamál að vera studdir heima við sé þess kostur. Markmiðið sé að efla bjargráð fólks heima við í stað þess að kippa fólki út úr sínu eðlilega umhverfi með innlögn. Þegar það kemur svo aftur heim eru vandamálin enn til staðar.
- Er vandinn hér meiri en annars staðar á landinu?
Hrönn segir að hópurinn sem glímir við geðræn vandamál sé að stækka, enda helst það í hendur við ástandið í þjóðfélaginu. Fólk sé t.a.m. með fjárhagsáhyggjur vegna atvinnuleysis og því fylgi oft kvíði og þunglyndi. Hrönn segir að það sé töluvert stór hópur af fólki á Suðurnesjum sem þarf á þessari þjónustu að halda.
„Hér búa 22.000 manns og hér er hátt hlutfall atvinnuleysis. Hér er einnig hátt hlutfall öryrkja. Það er framsýni hjá HSS að vilja bæta þessa þjónustu. Aukin þekking á andlegri líðan og áhrif hennar á líkamlega líðan kemur þarna inn og það er mikið forvarnarstarf að hlúa að andlegu hliðinni.
Það er mjög einstaklingsbundið hversu oft fólk fær þjónustu geðteymis HSS. Teymið er með einstaklinga sem það hittir vikulega og svo aðra sem koma sjaldnar. Sumir séu í langtímaeftirfylgd meðan aðrir koma í krýsuástandi og eru í eftirfylgd í nokkrar vikur.
Hjá geðteyminu er sálgæsluhjúkrunarfræðingur sem hefur sinnt áfallahjálp og sorgarvinnu. „Góð samvinna er við prestana á svæðinu sem vísa til okkar málum, þar sem þörf er á sértækri eftirfylgd“.
Geðrækt er eins og hver önnur líkamsrækt
Mjög góð leið er að leita til heilsugæslulæknis ef fólki líður illa og finnst ástandið vera viðvarandi. Þeir vísa þá fólki á geðteymið. Einnig getur fólk haft samband beint við geðteymið á HSS og fengið leiðsögn þar, hvert eigi að leita ef málið er ekki þess eðlis, að teymið taki það að sér til úrlausnar. Eins og sagt er, betra er heilt en vel gróið, það er betra að leita sér aðstoðar áður en allt er komið í óefni og oft þarf ekki að breyta miklu til að fá betri líðan. Geðrækt er eins og hver önnur líkamsrækt, það þarf hver að finna sitt jafnvægi og ekki horfa á geðraskanir sem feimnismál. Það er engin heilsa án geðheilsu.“
Í geðteymi fullorðinna eru 2,2 stöðugildi hjúkrunarfræðinga og sálfræðings. Teymið vinnur í nánu samstarfi við annað fagfólk innan og utan stofnunarinnar. Verkefnin eru hins vegar mörg og eftirspurn eftir þjónustunni hefur verið vaxandi. Hrönn vonast því til að hægt verði að fjölga í teyminu svo það geti sinnt öllum þeim málum sem því berast, en einnig sé brýn þörf á samvinnu við aðstandendur, fræðslu og forvarnarvinnu.
Stuttar boðleiðir
Frá því geðteymið tók til starfa í júlí hefur það leyst úr á annað hundrað málum. Hrönn er ánægð með hvernig til hefur tekist með málaflokkinn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hún segir gott starfsfólk við stofnunina og þá séu kostirnir við vinnuna á HSS vera stuttar boðleiðir og að allir séu tilbúnir til að hjálpa.
Texti og mynd: Hilmar Bragi
Á myndinni f.h.: Hrönn Harðardóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Hulda G. Sigurðardóttir sálgæsluhjúkrunarfræðingur, Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingur, Ásdís Claessen sálfræðingur og Hrund Teitsdóttir sálfræðingur.