Gasmengun frá eldgosinu nokkuð mikil
Eldgosið sem hófst 29. maí stendur enn og hefur því staðið yfir í 15 daga. Það hefur verið nokkuð stöðugt undanfarna daga og áfram er einn gígur virkur, eins og hefur verið síðan 4. júní. Mjög lítil skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu. Áfram er meginhraunstraumurinn frá gígnum í átt að Sýlingarfelli og meðfram því norðanmegin. Hrauntjörn er enn til staðar við Sýlingarfell en þó rennur hraun úr henni í virka hraunstrauminn norðan Sýlingarfells. Sá straumur er í svipuðum farvegi og hraunið sem rann yfir Grindavíkurveg síðastliðinn laugardag. Hraunjaðarinn nærri Grindavíkurvegi hreyfist mjög hægt áfram en þykknar. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.
Hraunbreiðan frá þessu gosi sú stærsta að flatar- og rúmmáli
Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar Eflu, Verkís og Svarma söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 10. júní. Gögnin sýna að flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 9,2 km2 og rúmmál um 41 milljón m3. Þar með er hraunbreiðan sem myndast hefur í þessu gosi sú stærsta að flatar- og rúmmáli sem myndast hefur í þeim fimm eldgosum sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023. Til samanburðar var hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu sem hófst 16. mars og stóð yfir til 9. maí um 6,2 km2 að flatarmáli og 35 milljón m3.
Út frá þessum gögnum er meðalhraunflæði frá eldgosinu á tímabilinu 3. - 10. júní metið um 10 m3/s. Frá því síðdegis 29. maí til 3. júní var hraunflæðið metið um 27 m3/s, því dró nokkuð úr gosinu milli þessara tveggja mælinga.
GPS mælingar benda til að landris í Svartsengi haldi áfram og að staðsetning kvikusöfnunar undir Svartsengi sé óbreytt. Það má túlka þetta sem svo að kvikuflæði frá dýpi haldi áfram og sé meira en flæði frá gígnum og kvikusöfnun undir Svartsengi haldi því áfram eins og áður. Áfram verður fylgst náið með framvindu atburðarins og reynt að varpa skýrara ljósi á þróunina.
Færslur á GPS stöðinni SENG við Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (10. júní) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu fimm eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. Mars og 29. maí 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. Nóvember 2023 og 2. mars 2024).
Mikil gasmengun síðustu daga
Gasmengun frá eldgosinu hefur verið nokkuð mikil í gær og í dag. Mælir sem Veðurstofan er með hjá Bláa lóninu og mælir Umhverfisstofnunar í Höfnum sýna töluvert mikla gasmengun. Það hefur verið austlæg átt í nótt og því blés gas frá eldgosinu til vesturs. Mesti styrkur SO2 mældist rúmlega 8000 µg/m3 (10 mínútna meðaltal). Það má búast við að gasmengun verði viðvarandi næstu daga. Áfram er austlæg átt í dag og berst gasið þá til vesturs yfir Svartsengissvæðið og þaðan áfram yfir vestanverðan Reykjanesskagann. Á morgun verður breytileg átt og því útlit fyrir að gasið dreifist víða um Reykjanesskagann en er líður á daginn gengur í norðanátt og þá mun gas blása suður yfir Grindavík.
Hættumat hefur verið uppfært í ljósi þróunar á eldgosinu og veður- og gasdreifingarspár. Það er að mestu óbreytt, en á svæði 5 hefur hætta vegna hraunflæðis aukist. Áfram er mjög mikil hætta á svæði 3, Sundhnúksgígaröðin, þar sem eldgosið hófst. Einnig er mikil hætta (rautt) á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6. Á svæði 1, 5 og 7 er töluverð hætta (appelsínugult). Á öllum svæðum nema svæði 7 eru miklar líkur á gasmengun. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 20. júní.
(Smellið á kortið til að skoða stærra)