Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Garðvangur rekinn áfram með að lágmarki 15 hjúkrunarrýmum
Þriðjudagur 3. september 2013 kl. 09:28

Garðvangur rekinn áfram með að lágmarki 15 hjúkrunarrýmum

Sveitarfélögin Garður og Sandgerðisbær fengu Harald Líndal Haraldsson hagfræðing til að vinna úttekt á hagkvæmni þess að hjúkrunarþjónusta við aldraða verði áfram rekin á Garðvangi í Garði, auk greiningar á kostnaði við nauðsynlegar endurbætur á Garðvangi og fjármögnun þeirra.  Fyrir liggur skýrsla Haraldar Líndal, „Garðvangur hjúkrunarheimili, greining og tillögur“.  Efni skýrslunnar hefur verið kynnt heilbrigðisráðherra og sveitarstjórnarmönnum sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Bæjarráð sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar hafa samþykkt eftirfarandi tillögur sem fram koma í skýrslunni:

1. Með hliðsjón af áætlaðri þörf fyrir hjúkrunarrými fyrir íbúa sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar og þeirri stefnu að opnað verði hjúkrunarheimili síðar í Sandgerðisbæ, verði Garðvangur rekinn áfram með að lágmarki 15 hjúkrunarrýmum.

2. Leitað verði eftir því við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að stofnunin taki að sér rekstur Garðvangs á grundvelli þeirra daggjalda sem fást greidd með hverju hjúkrunarrými.

3. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs bjóði heilbrigðisráðherra að sveitarfélagið taki að sér fjármögnun kostnaðar við endurbætur á húsnæði Garðvangs samkvæmt svokallaðri „leiguleið“.

4. Fram fari ítarleg úttekt á ástandi húsnæðis Garðvangs og einnig verði unnin nákvæm þarfalýsing vegna þeirra endurbóta sem þarf að gera á húsnæðinu.

5. Bæjarstjórnir sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar beiti sér fyrir því að sveitarfélögin á Suðurnesjum marki sér stefnu til framtíðar litið í heilbrigðis-og öldrunarmálum á Suðurnesjum.

Í skýrslu Haraldar Líndal eru færð ítarleg rök fyrir þessum tillögum.  Í skýrslunni koma fram ýmsar upplýsingar um þróun og stöðu hjúkrunarþjónustu við aldraða á Suðurnesjum. Þar kemur m.a. skýrt fram að Suðurnes hafa almennt setið eftir ef litið er til annarra heilbrigðisumdæma er varðar fjölda hjúkrunarrýma og fjármagn frá Framkvæmdasjóði aldraðra til uppbyggingar á hjúkrunarþjónustu við aldraða á Suðurnesjum. Það er ljóst að aldraðir á Suðurnesjum og sveitarstjórnarmenn geta ekki unað við þá mismunun sem fram kemur í skýrslunni og því hafa sveitarfélögin Garður og Sandgerði þegar óskað eftir samstarfi allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum við að ná fram leiðréttingum á þessum þáttum, segir á vef Sveitarfélagsins Garðs.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024