Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Garðvangur braut gegn ákvæðum kjarasamnings
Föstudagur 22. október 2010 kl. 10:06

Garðvangur braut gegn ákvæðum kjarasamnings


Garðvangur braut gegn kjarasamningi með því að afnema greiðslur til sjúkraliða vegna aksturs. Sjúkraliðafélag Íslands stefndi Garðvangi í Garði fyrir hönd átta sjúkraliða sem búsettir eru í Reykjanesbæ og Sandgerði. 

Fram til ársins 2009 greiddi Garðvangur ferðakostnað þeim sjúkraliðum sem búsettir eru utan Garðs og starfa á Garðvangi.  Sama gilti um sjúkraliða sem búsettir eru utan Reykjanesbæjar og starfa hjá Hlévangi. Byggðust þær greiðslur á ákvæði í kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands. Í ákvæðinu segir að vinni starfsmaður fjarri leiðum almenningsvagna skuli vinnuveitandi sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða honum ferðakostnað.  Slíkar ferðir teljist til vinnutíma.

Í lok janúar 2009, tilkynnti Finnbogi Björnsson, framkvæmdastjóri Garðvangs, sjúkraliðunum að vegna tekjulækkunar væri nauðsynlegt að draga úr kostnaði og að tekin hefði verið ákvörðun um að lækka greiðslur vegna aksturs.  Frá og með 15. febrúar 2009 skyldi greiða kílómetra vegna hverrar vaktar, mismarga eftir því hvar viðkomandi starfsmenn væru búsettir.

Þessu mótmælti lögmaður Sjúkraliðafélagsins og skoraði á forsvarsmenn Garðvangs að draga þessa ákvörðun til baka enda væri verið að brjóta gegn ákvæðum í kjarasamningi.

Með bréfi, dags. 29. október 2009, tilkynnti framkvæmdastjóri Garðvangs  að frá og með 1. febrúar 2010 yrðu allar akstursgreiðslur felldar niður. Litið hafi verið til þess að þann 1. september 2009 hafi verið gerð ný tímatafla fyrir almenningsvagna í sveitarfélögunum Garði og Sandgerði og hafi þeir tengst almenningsvögnum Reykjanesbæjar. Hafi því verið myndað nýtt leiðakerfi fyrir almenningsvagna á þessu svæði. Leitað hafi verið til forsvarsmanna Garðvangs við undirbúning þessa nýja leiðarkerfis almenningsvagna og það sérstaklega hannað með tilliti til starfsmanna Garðvangs og Hlévangs.
Í beinu framhaldi af þessari breytingu á leiðakerfi almenningsvagna á Suðurnesjum hafi verið ákveðið að fella niður greiðslur vegna aksturs til og frá vinnu frá og með 1. febrúar 2010.

Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Garðvangs hafi brotið í bága við ákvæði í kjarasamningum.
Í dómsorði segir að sjúkraliðar, sem starfa á Garðvangi í Garði, en eru búsettir í Reykjanesbæ, Sandgerði eða Vogum, eigi, samkvæmt grein 5.4.1 í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, rétt á því að stefndi sjái þeim fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiði þeim ferðakostnað og að slíkar ferðir teljist til vinnutíma.

Hér má lesa nánar um niðurstöðu dómsins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024