Garður sker sig úr með góða fjárhagsstöðu
– Rekstrarúttekt Garðs tekin fyrir í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs tekur undir lokaorð skýrslu frá Haraldi L. Haraldssyni hagfræðingi um að Sveitarfélagið Garður skeri sig nokkuð frá öðrum sveitarfélögum hvað góða fjárhagsstöðu varðar. Haraldur vann rekstrarúttekt á Sveitarfélaginu Garði. Úttektin var tekin fyrir á síðasta fundi bæjarstjórnar Garðs.
Jafnframt tekur bæjarstjórn undir að hagræða þarf í rekstri þannig að til framtíðar litið verði framkvæmdir og fjárfestingar fjármagnaðar með fjármunum frá rekstri og án nýrra lántaka.
Bæjarstjórn bendir á að samkvæmt úttektinni eru gjöld og skattar almennt lág hjá sveitarfélaginu í samanburði við önnur sveitarfélög. Ef þau markmið nást sem felast í tillögum um hagræðingu í rekstri, þá mun Sveitarfélagið Garður hafa nokkra sérstöðu meðal sveitarfélaga, nánast skuldlaust með lágar álögur á íbúana og fjárfestingar fjármagnaðar með fé úr rekstri, án lántaka. Náist þetta fram að ganga verður Sveitarfélagið Garður fyrirmyndar sveitarfélag og mörgum öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni, segir í afgreiðslu bæjarstjórnar Garðs á rekstrarúttekt Haraldar.