Garður og Sandgerði reki Garðvang
Vilja funda með heilbrigðisráðherra
Bæjarstjórn Garðs boðaði til aukafundar nú síðdegis vegna fyrirhugaðar lokunnar dvalarheimilisins Garðvangs sem ákveðin var fyrr í vikunni.
Forseti bæjarstjórnar Garðs rakti í samandregnu yfirliti hver aðdragandi málsins hefur verið allmörg undanfarin ár. Vísað var til sameiginlegrar yfirlýsingar sveitarfélaganna frá júlí 2004, þar sem gert er ráð fyrir að í framhaldi af byggingu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum í Reykjanesbæ verði ráðist í endurbætur á Garðvangi og þar verði áfram rekin hjúkrunarþjónusta.
Í fundargerð bæjarstjórnar segir að útttekt Landlæknisembættisins sem gerð var árið 2011 hafi falið í sér brýna þörf á úrbótum á húsnæði Garðvangs. Stjórn DS hefur því verið meðvituð og fjallað um málið og bæjarstjórn Garðs hefur ítrekað lagt fram tillögur um að í þær verði ráðist. Þá var farið yfir umfjöllun um málið á vettvangi DS og SSS. Einnig var fjallað um fundi fulltrúa Garðs í Velferðarráðuneyti og fundi bæjarstjóra aðildarsveitarfélaga DS undanfarna mánuði sem leiddu af sér samkomulag um endurbætur og áframhaldandi rekstur Garðvangs, ásamt stuðningi við viðbótar hjúkrunarrými á Nesvöllum.
Fram kom á fundinum að bæjarstjórn Garðs styður eindregið afstöðu fulltrúa Garðs og Sandgerðisbæjar á fundi stjórnar DS þann 15.júlí, en fulltrúar sveitarfélagann greiddu atkvæði gegn lokun Garðvangs. Reykjanesbær (tveir fulltrúar) og Vogar greiddu atkvæði þess efnið að Garðvangi yrði lokað.
Bæjarstjórn Garðs lýsti ennfremur yfir vonbrigðum með að fulltrúar Reykjanesbæjar og Voga hafi í andstöðu við fulltrúa Garðs og Sandgerðisbæjar samþykkt með meirihlutavaldi í stjórn DS að samhliða tilkomu 60 rúma hjúkrunarheimili á Nesvöllum í Reykjanesbæ verði 30 hjúkrunarrúm rekin á Hlévangi í Reykjanesbæ í stað Garðvangs eins og áður var stefnt að. Þar með verði starfsemi hætt á Garðvangi, sem felur í sér að um 50 manna vinnustað í Garði verði lokað. Í fundargerð segir að bæjarstjórn Garðs geti ekki sætt sig við að samstarfssveitarfélög taki slíka afstöðu. Bæjarstjórn Garðs telur að með þessari afstöðu hafi orðið alger stefnubreyting frá samkomulagi sveitarfélaganna frá mars 2013, um að ráðist verði í endurbætur á Garðvangi og hjúkrunarþjónusta við aldraða verði rekin áfram á Garðvangi.
Bæjarstjórn minnti á að með sameiginlegri yfirlýsingu sveitarfélaganna frá því í júlí 2004 var mótuð sú sameiginlega stefna að í framhaldi af uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum í Reykjanesbæ verði gerðar endurbætur á Garðvangi og að þar verði rekin hjúkrunarþjónusta við aldraða til framtíðar. Ein af rökum meirihluta stjórnar DS fyrir því að leggja af starfsemi Garðvangs eru að frá því að yfirlýsingin var gerð árið 2004 hafi verið gerðar auknar kröfur um húsnæðisaðstöðu á hjúkrunarheimilum. Bæjarstjórn Garðs benti á á fundinum að það sama hljóti að gilda varðandi Nesvelli og að uppfylla megi þær kröfur með endurbótum á Garðvangi, eins og gengið var út frá í samkomulagi sveitarfélaganna frá því í mars 2013. Segir jafnframt í fundargertð að bæjarstjórn Garðs harmi að ekki sé hægt að treysta því að yfirlýsingar og samkomulag sem sveitarfélög gera sín í milli standi og gangi eftir.
Samþykkt var að unnin verði úttekt á hagkvæmni þess að Garður og Sandgerðisbær reki áfram hjúkrunarþjónustu við aldraða á Garðvangi, enda séu fjárheimildir ríkisins til rekstrarins bundnar við Garðvang í fjárlögum. Leitað verði eftir samstarfi við Sandgerðisbæ þar um. Einnig verði gerð úttekt á kostnaði við nauðsynlegar endurbætur á Garðvangi og fjármögnun þeirra. Bæjarstjóra Garðs verði falið að leita til ráðgjafa um þessa vinnu, í samráði við hann verði kallað eftir rekstrargögnum hjá Garðvangi. Unnin verði greinargerð um eignarhald fasteignanna Garðvangs og Hlévangs og hugsanlega möguleika á yfirtöku Garðs og Sandgerðisbæjar á Garðvangi.
Garður hyggst leita álits á samþykktum DS, hverjar séu valdheimildir stjórnar og hlutverk hennar. Varðandi það að samið verði við sérstakan rekstraraðila sem annist rekstur hjúkrunarþjónustu við aldraða á starfssvæði DS, þá telur bæjarstjórn að ákvörðun um slíkt sé ekki tímabær þar sem ekki liggur fyrir hvernig og hvar hjúkrunarrými sem falla undir DS verða rekin. Segir að rétt sé að sú niðurstaða liggi fyrir áður en slíkar ákvarðanir verða teknar. Bæjarstjórn leggur áherslu á að fá fund um málið með heilbrigðisráðherra sem allra fyrst og var tillagan samþykkt samhljóma.