Garður: Mikið að gera á Degi umhverfisins
Dagur umhverfisins var haldinn hátíðlegur í Garði á föstudag og tóku fjölmargir til hendinni til að fegra bæinn sinn.
Blái herinn, bæjarfulltrúar og nemendur úr Gerðaskóla hófust handa við að hreinsa strandlengju Garðs. Það voru nemendur úr 7., 8. og 9. bekk sem lögðu sitt af mörkum fyrir hreinna umhverfi við Garðskaga. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og tíndu þó nokkuð magn af rusli úr fjörunni, grjótgarðinum og af túnunum. Vert er að benda á að Blái herinn mun halda áfram að hreinsa strandlengjuna á næstu tveimur vikum. Herinn reiðir sig á krafta og dugnað sjálfboðaliða og er öllum velkomið að taka þátt.
Leikskólinn Gefnarborg tók einnig þátt í degi umhverfisins með því að tína rusl í skrúðgarðinum, við Garðvang, Auðarstofu og í kringum leikskólann.
Í Gerðaskóla var hátíðardagskrá þar sem m.a. voru veitt verðlaun fyrir umhverfismerki Gerðaskóla og Gefnarborgar en báðir skólarnir stefna að því að flagga Grænfánanum í vor.
Á vef Garðs þakkar sveitarfélagið og umhverfisnefnd nemendum og starfsfólki skólanna fyrir framlag þeirra á degi umhverfisins.
Myndir/www.sv-gardur.is