Garður mætir Árneshreppi í Útsvari
Frumraun Garðmanna í Útsvari á RÚV verður gegn Árneshreppi nk. föstudagskvöld. Alls munu 24 sveitarfélög etja kappi í Útsvari í vetur. Auk Sveitarfélagsins Garðs eiga tvö önnur sveitarfélög á Suðurnesjum lið í keppninni í vetur. Það eru Grindavík og Sandgerði.
Dregið er um sveitarfélög til þátttöku og í ár kom nafn Garðs upp við drátt úr hópi fámennari sveitarfélaga. Þar var nafn Árneshrepps einnig.
Eins og áður hefur verið greint frá er búið að velja í lið Garðs og munu eftirtalin skipa lið Garðs: Magnús Guðmundsson kennari og fyrrverandi skipstjóri, Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur og Guðjón Árni Antoníusson íþróttafræðingur og knattspyrnukappi.
Garðmenn eru hvattir til að mæta í sjónvarpssal á föstudagskvöld og hvetja sitt fólk til dáða.