Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Garður: Fjölskyldur flytja burt til að forða börnum frá áralöngu einelti
Fimmtudagur 6. október 2011 kl. 10:48

Garður: Fjölskyldur flytja burt til að forða börnum frá áralöngu einelti


Að mati meirihluta skólanefndar Gerðaskóla í Garði eru eineltismál og líðan nemenda með öllu óviðunandi í Gerðaskóla. 13,3 % nemenda segjast verða fyrir einelti oftar en 2-3 sinnum í mánuði. Þetta er næstum helmingi hærri tala en á landsvísu og alls ekki hægt að sættast á þessa niðurstöðu, segir skólanefndin í svari við bréfi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu frá 6. september sl. Þar óskar ráðuneytið eftir upplýsingum um hvernig unnið hafi verið að úrbótum á þeim þáttum skýrslunnar, Mat á skóla- og æskulýðsstarfi í Sveitarfélaginu Garði sem unnin var 2008.

Meirihluti skólanefndar Gerðaskóla segir að viðbrögð þeirra starfsmanna sem eiga að taka á þessum vanda virðast vera fálmkennd í besta lagi og er hér gott að benda á það ósamræmi í svörum starfsfólks annars vegar og þeirra nemenda sem fyrir einelti verða hinsvegar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

90% starfsfólks telur að tekið sé á þessum málum og ráðið fram úr þeim, en 35% nemenda telja að umsjónarkennari geri ekkert til að taka á einelti því sem þeir verða fyrir. Ekki er það til að fegra málið að 25% stúlkna og tæp 30% drengja segjast verða fyrir einelti í kennslustofu þegar kennari er viðstaddur.

„Það er svo samfélaginu til vansa að nokkrar fjölskyldur hafa flutt burt undanfarið með börn sín til að forða þeim frá áralöngu einelti og í samtölum sínum við bæjaryfirvöld lýst sárum vonbrigðum yfir viðbrögðum og aðkomu skólayfirvalda að þeim vanda sem börn þeirra voru stödd í. Einelti má ekki undir nokkrum kringumstæðum gefast upp fyrir og verður leitað allra leiða til að koma þeim málum á rétta braut,“ segir í fundargerð skólanefndar.


Fámenn klíka starfsmanna

Í skýrslunni 2008 kemur fram að í skólanum hafi myndast fámenn klíka starfsmanna sem í krafti samstöðu og langs starfsaldurs ráði í raun miklu, of miklu, um stjórn skólans. Skólanefnd segir að spurningar um slíkt eru náttúrulega ekki að finna í umræddri könnun en sú fullyrðing manna um að svo sé enn raunin svífur um vötnin og getur skólanefnd hvorki, né vill hún, sætta sig við að einhver annar en sá sem ráðinn er til þess að stjórna skólanum hverju sinni fari með slíkt vald. 

Samkvæmt könnun sem gerð var meðal stafsmanna og fór fram 11. - 15. apríl sl. segir að samstaða og liðsheild virðist einnig hafa batnað þó nokkuð og má segja að megin þunginn í svörum kennara og starfsfólks hafi færst yfir á jákvæðari nótur. Þó svo starfsandinn sé á heildina litið jákvæðari, ef marka má þessa könnun, þá eru þar einstaka svör á skjön við heildasvipinn á könnuninni t.d. að 27% starfsmanna telja að starfsandinn í skólanum hafi lítið breyst sl. misseri og að eingöngu 53% starfsmanna telja einelti og neikvæða stríðni aldrei vera beitt í samskiptum starfsfólks á milli.

Í viðhorfskönnun sem gerð var hjá foreldrum 31. janúar 2011 kemur fram að allir svarendur telja samstarf við skólann vera gott, eða mjög gott. Skólanefnd segir það hinsvegar áhyggjuefni að í sömu viðhorfkönnun kemur fram að 31% foreldra eru því ósammála eða ekki sammála að skólinn taki af festu á eineltis- og agavandamálummálum. Verður það að skýrast af því sem hér að ofan er framsett um eineltismálin og er það því varla úr lausu lofti gripið, segir skólanefndin. „Það eru síðan viss vonbrigði að ekki nema u.þ.b. helmingur foreldra svaraði þessari viðhorfskönnun og óvenju hátt hlutfall þeirra kaus að taka ekki afstöðu í einstaka spurningum,“ segir í fundargerð skólanefndar.

Að endingu segir: „Sjálfsmati hefur verið sinnt að mestu og á heildina litið má segja að skólaþróunin hefur þokast upp á við sé litið framhjá óvenju miklum veikindaforföllum einstakra kennara, eineltismála og samstarfs skólanefndarmanna á milli annars vegar og skólastjóra og bæjarstjórnarmeirihluta hinsvegar. En þessir þættir vega svo þungt í þessu samhengi að ekki verður framhjá þeim litið né undan því komist að gera viðeigandi ráðstafanir“.


Athugasemd kl. 13:00 - Þegar þessi frétt var sett inn í morgun var ekki tekið fram að um er að ræða álit meirihluta skólanefndar Gerðaskóla. Fréttinni hefur því verið breytt og orðinu „meirihluti“ bætt inn. Nánar verður fjallað um málið hér á vf.is í dag.