Garður eitt stöndugasta sveitarfélag landsins fjárhagslega
Fjárhagsáætlun 2014-2017 felur í sér að fjárhagsleg staða Sveitarfélagsins Garðs er mjög góð. Bæjarstjórn vinnur að því markmiði að uppfylla jafnvægisreglu í fjármálareglum sveitarstjórnarlaga. Á 120. fundi bæjarstjórnar var samþykkt samhljóða að láta vinna úttekt á rekstri sveitarfélagsins. Fyrstu áfanganiðurstöður hafa verið kynntar og má þegar sjá áhrif þeirra til rekstrarhagræðingar í fjárhagsáætluninni. Bæjarstjórn mun fjalla um frekari hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins þegar niðurstaða rekstrarúttektar liggur fyrir á fyrstu mánuðum ársins 2014. Þetta kemur fram í bókun meirihluta D- og L-lista í bæjarstjórn Garðs um fjárhagsáætlun næsta árs.
Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að heildartekjur ársins 2014 verði kr. 954,6 milljónir. Skatttekjur aðalsjóðs í A-Hluta eru áætlaðar kr. 850,7 milljónir.
Rekstrarafgangur af reglulegri starfsemi A-og B Hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður kr. 81,9 milljónir. Afskriftir eru áætlaðar kr. 77,7 milljónir og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur kr. 0,4 milljónir.
Rekstrarniðurstaða A-og B Hluta er áætlaður rekstrarafgangur kr. 3,8 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað kr. 104,5 milljónir, eða 10,9% af tekjum. Gert er ráð fyrir að nýta handbært fé til að greiða upp vaxtaberandi langtímalán að fjárhæð kr. 209,4 milljónir. Með því lækka langtímalán úr kr. 290,6 milljónum í árslok 2013 í kr 81,2 milljónir árið 2014 og verða um 8% af tekjum. Hlutfall heildarskulda af tekjum lækkar með þessari ráðstöfun úr 75,6% árið 2013 í 50,3% árið 2014.
Í áætluninni er gert ráð fyrir framkvæmdum að fjárhæð kr. 230,5 milljónum árið 2014. Stærsta einstaka framkvæmdin er viðbygging við íþróttamiðstöð kr. 130 milljónir. Allar framkvæmdir verða fjármagnaðar með handbæru fé og ekki gert ráð fyrir að tekin verði ný lán.
Samkvæmt rammaáætlun 2015-2017 verður jafnvægisregla sveitarstjórnarlaga uppfyllt árið 2016. Gert er ráð fyrir að handbært fé aukist hratt á ný á tímabilinu og reiknað er með fjárfestingum á hverju ári sem nemur kr. 50,0 milljónum.
Bæjarstjórn vinnur að því markmiði að bæta rekstrarafkomu sveitarfélagsins á næstu árum og styrkja enn frekar fjárhagslega stöðu. Allt er það í þágu íbúa sveitarfélagsins til framtíðar litið, þannig að Sveitarfélagið Garður verði eitt stöndugasta sveitarfélag landsins fjárhagslega og veiti jafnframt íbúunum og atvinnulífinu bestu þjónustu sem völ er á, segir í bókun meirihlutans í bæjarstjórn Garðs.