Fréttir

  • Garðskagaviti fagnar 70 ára afmæli
  • Garðskagaviti fagnar 70 ára afmæli
Mánudagur 18. ágúst 2014 kl. 13:35

Garðskagaviti fagnar 70 ára afmæli

– áhugi í Garði fyrir afmælishátíð. Skýrist á næstu dögum.

Garðskagaviti fagnar 70 ára afmæli um þessar mundir. Vitinn var formlega vígður þann 10. september lýðveldisárið 1944 en hann var byggður á þremur mánuðum af 10-15 manna vinnuflokki, undir stjórn Sigurðar Péturssonar frá Sauðárkróki.

Hinn reisulegi Garðskagaviti, sem hannaður er af Axel Sveinssyni verkfræðingi, kom í stað eldri Garðskagavita sem þótti of lágur og einnig í hættu vegna landbrots. Hinn sívali kóníski steinsteyputurn er 28,6 m að hæð með ljóshúsi sem er ensk smíð. Vitinn var húðaður með ljósu kvarsi í upphafi en var kústaður með hvítu viðgerðar- og þéttiefni árið 1986.

Í fyrstu voru notuð ljóstækin úr eldri Garðskagavitanum en árið 1946 var vitinn rafvæddur. Árið 1960 var skipt um linsu og í stað linsunnar frá 1897 var sett fjórföld snúiningslinsa.

Garðskagi var einn þeirra vitastaða þar sem vitavörður hafði fasta búsetu og stóð svo fram til 1979. Vitavarðarhús stendur enn en það var byggt árið 1933 eftir teikningum Einars Erlendssonar arkitekts.
Garðskagaviti var vígður sunnudaginn 10. september 1944, með mikilli viðhöfn. Fór vígslan fram með útiguðsþjónustu. Séra Eiríkur Brynjólfsson, sóknarprestur predikaði, kirkjukórar Útskála- og Keflavíkursókna sungu, en Emil Jónsson, vitamálastjóri flutti vígsluræðuna. þakkaði hann sóknarprestinum, séra Eiríki Brynjólfssyni á Útskálum, sem hafði undirbúið hátíðarhaldið, en það væri í fyrsta sinn sem tekið væri á móti nýjum vita í héraði af slíkum myndarskap, segir í samantekt á vef Sveitarfélagsins Garðs.

„Minnir það mig á,“ sagði Emil í ræðu sinni, „að fyrstu sagnir um leiðarljós fyrir sjómenn á Íslandi, eru tengdar við kirkjuna. Mér hefir verið á það bent, að verið hafi hér til forna, um 1200 og jafnvel fyrr ákvæði um að ljós skyldi loga í ákveðnum kirkjum, allar nætur tiltekin tímabil. Þegar þessi ákvæði voru rannsökuð nánar kom í ljós, að flestar þær kirkjur, sem hér var um að ræða, voru nálægt sjó, og á þeim stöðum þar sem ætla má að sjófarendur hafi getað notið þeirra.“

Á fundi ferða-, safna- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Garðs í júlí lagði Guðmundur Magnússon fram nokkrar hugmyndir um menningartengda viðburði í Garði og m.a. að haldið verði viðburður í tilefni af 70 ára afmæli Garðskagavita. Í samtali við Víkurfréttir segir Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Garði að ekki liggi endanlega fyrir hvort eða hvað verður gert. „Það er hins vegar áhugi á að gera eitthvað af þessu tilefni. Það mun væntanlega skýrast á næstu dögum,“ sagði Magnús Stefánsson við Víkurfréttir.

Public deli
Public deli