Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Garðmenn taka 50.000.000 kr. lán vegna útgjalda og vanáætlunar fyrri meirihluta
Fimmtudagur 7. september 2006 kl. 11:15

Garðmenn taka 50.000.000 kr. lán vegna útgjalda og vanáætlunar fyrri meirihluta

Meirihlutinn í Bæjarstjórn Garðis lagði það til í gær að bæjarstjórn samþykki að sótt verði um lán að upphæð 50.000.000. kr. hjá Lánasjóði sveitarfélaga til 16 ára.

Greinargerð frá N-lista
Lánsþörfin er komin til vegna útgjalda sem stofnað var til á fyrstu 5 mánuðum ársins og vegna vanáætlunar í fjárhagsáætlun fyrir árið 2006.  Helstu liðir sem vanáætlaðir voru í fjárhagsáætlun eru:

1. Gatnagerð, fráveita og tæknivinna vegna lóða og nýbygginga.  Vanáætlun um 28.800.000 kr.   Áætlaðar voru 25.000.000 kr. í gatnagerð en ráðist var í gatnagerð í Grímsholti, Vörðubraut og Iðngörðum enda ljóst áður en fjárhagsáætlun var gerð að nauðsynlegt væri að legga þær götur.  Búið var að ákveða fyrir gerð fjárhagsáætlunar að malbika afleggjara í útgarði.  Kostnaður vegna þessa framkvæmda auk framkvæmda við Kríuland nema u.þ.b. 45.000.000 kr. sem hefði átt að gera ráð fyrir í fjárhagsáætlun.  Vanáætlun fyrir þennan lið er því 20.000.000 kr.  Vanáætlun vegna fráveitu er um 5.500.000 kr. og tæknivinna vegna lóða og nýbygginga vanáætluð um 3.300.000 kr. og tengist sá kostnaður að mestu byggingum við ofantaldar götur. 

2. Stækkun leikskóla.  Vanáætlun um 18.000.000 kr.  Áður en fjárhagsáætlun var samþykkt í bæjarstjórn var búið að gera samning við verktaka um að steypa upp 2. hluta viðbyggingar leikskólans um leið og 1. hluti var steyptur upp.  Tilboð verktaka í 1. hluta var um 32.000.000 kr. og í 2. hluta 14.500.000 kr. samtals um 46.500.000 kr.  Þrátt fyrir þetta voru aðeins áætlaðar 35.000.000 kr. í stækkun leikskóla.  Nú er verkinu lokið og reynist vanáætlun vera samtals um 18.000.000 kr.

3. Kostnaður í rekstri leikskóla vegna fleiri barna í stærra húsnæði.  Vanáætlun um 7.500.000 kr.  Í fjárhagsáætlun var ekki gert ráð fyrir kostnaði við fjölgun barna í leikskólanum vegna tilkomu nýrrar deildar og fjölgunar barna í heilsdagsdvöl. 

4. Afborganir lána og skamm- og langtímavextir.  Vanáætlun um 24.600.000 kr.  Við gerð fjárhagsáætlunar var ekki tekið tillit til verðbólguspáa Seðlabankans eða spáa annarra bankastofnanna um horfur í þessum málum.  Afborganir lána reynast um 13.000.000 kr. hærri en gert var ráð fyrir í áætlun og skamm- og langtímavextir um 11.600.000 kr. hærri en gert var ráð fyrir.  Inni í þessari tölu eru einnig vextir af láni sem tekið var í apríl s.l. en ekki var áætlað að greiða þyrfti vexti af því láni sem þó var gert ráð fyrir að taka í fjárhagsáætluninni. 

5. Aðrir liðir.  Stærstu liðir sem ekki var áætlað fyrir er lagning reiðvegar, bygging eldhúss á Byggðasafni, gerð heimasíðu og aukning á kaupum á auglýsingum en samtals gera þessir liðir um 11.500.000 kr.   Þá er ótalinn kostnaður vegna biðlauna bæjarstjóra sem eðlilegt má teljast að ekki hafi verið áætlað fyrir, en sá kostnaður nam um 6.500.000 kr.
Alls nema ofantaldir liðir um 96.900.000 kr. 

Samkvæmt árshlutareikningi og áætlaðri rekstrarniðurstöðu sem unnin var í samtarfi við endurskoðenda bæjarins fara flestir liðir málaflokka fram úr áætluninni.  Gert er ráð fyrir að fjárhagsstaðan (innborganir-útborganir) verði 104.700.000 kr. verri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2006. Þennan halla er gert ráð fyrir að brúa með veltufé frá rekstri kr. 30.800.000, nýju láni kr. 50.000.000. kr. og lækkun skammtímakrafna kr. 23.900.000.

Einar Jón Pálsson, bæjarfulltrúi minnihlutans, óskar eftir fundarhléi. Forseti gerir hlé á fundi í 15 mínútur eða skemur, eftir þörfum. Haldið var áfram eftir fundarhlé og tillagan samþykkt samhljóða.

Bókun F-lista:

Vegna misræmis í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2006 og áætlaðrar rekstrarniðurstöðu fyrir sama ár hefur verið ákveðið að taka lán að upphæð 50.000.000 kr.
Rétt er að benda á að misræmi þetta er að stórum hluta vegna hækkunar verðbólgu og verðbætur eru því mun hærri hluti en gert var ráð fyrir í áætlun.  Einnig er farið í meiri framkvæmdir en gert var ráð fyrir í áætlun, en þess ber að geta að flest af því var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn og kostnaði vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.  Ber þar meðal annars að nefna auknar framkvæmdir við leikskólann og aukna gatnagerð. Ekki er rétt að tala um að lánsþörfin sé eingöngu tilkomin vegna útgjalda sem stofnað var til á fyrstu 5 mánuðum ársins. Heldur gerir endurskoðun ráð fyrir þessari fjárþörf út árið 2006.
F-listinn áskilur sér rétt til að svara greinargerð N-listans nánar eftir fund með endurskoðanda bæjarins. 
 
Bókun N-lista:

N-listi vill ítreka að lánsþörfin er komin til vegna útgjalda sem stofnað var til á fyrstu 5 mánuðum ársins og einnig vegna vanáætlunar í fjárhagsáætlun. Í fjárhagsáætlun ársins 2006 var ekki gert ráð fyrir öllum þeim framkvæmdum sem ákveðið var árið 2005 að framkvæma á árinu 2006.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024