Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Garðmenn ósáttir við Landsbankann
Fimmtudagur 20. september 2012 kl. 14:21

Garðmenn ósáttir við Landsbankann

- bæjarstjóra falið að leita hagkvæmustu leiða til að hámarka ávöxtun Framtíðarsjóðs.

Bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs harmar og lýsir miklum vonbrigðum með að Landsbanki hafi lokað afgreiðslu bankans í Garð. Eftir fundi bæjarráðs með stjórnendum bankans var ákvörðun bankans breytt að hluta til, þannig að afgreiðsla bankans verði opin tvo daga í viku, tvær klukkustundir í senn. Það fyrirkomulag ætlar bankinn að meta á næstu mánuðum og taka frekari ákvarðanir í framhaldinu.

Bæjarráð Garðs telur slíkt fyrirkomulag þjónustu bankans alls ófullnægjandi. Bæjarráðið hefur átt fundi með stjórnendum Landsbankans vegna málsins þar sem það hefur komið skýrt á framfæri sjónarmiðum sínum vegna þessa. Bæjarráðið telur hins vegar að stjórnendur Landsbankans hafi lítið sem ekkert gert með þau.

Bæjarráð ítrekaði á síðasta fundi sínum að vinnubrögð bankans og ákvörðunin sjálf eru harðlega gagnrýnd.

Þá segir bæjarráð Garðs að „Sveitarfélagið Garður hefur haldið tryggð við Landsbankann vegna afgreiðslunnar í Garði og lagt sig fram um að eiga góð samskipti og viðskiptasamband við bankann. Bæjarráð telur að Landsbankinn meti það lítils með aðgerðum sínum. Í ljósi stöðu mála felur bæjarráð bæjarstjóra að leita til fjármálafyrirtækja og kanna hvaða möguleikar eru í boði varðandi bankaviðskipti sveitarfélagsins til framtíðar og gera tillögu um það til bæjarráðs hið fyrsta. Einnig er bæjarstjóra falið að leita hagkvæmustu leiða til að hámarka ávöxtun Framtíðarsjóðs og leggja um það tillögu fyrir bæjarráð hið fyrsta. Framtíðarsjóður hefur verið í vörslu hjá Landsbankanum“.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024