Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Garðmenn mótmæla harðlega markmiðum um sameiningu sveitarfélaga með lagasetningu
Miðvikudagur 4. júní 2003 kl. 20:22

Garðmenn mótmæla harðlega markmiðum um sameiningu sveitarfélaga með lagasetningu

„Hreppsnefnd Gerðahrepps mótmælir harðlega þeim yfirlýsingum og markmiðum forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga að sameina beri sveitarfélög með lagasetningu takist það markmið ekki meða frjálsum vilja að fækka sveitarfélögum í 40. Hreppsnefnd Gerðahrepps telur það ekki sjálfgefið að stórar einingar þurfi endilega að vera hagkvæmari rekstrareining heldur en þær minni. Það á að vera frjálst val íbúa sveitarfélaganna sjálfra hvort þau vilji sameinast eða ekki“.Þessi tillaga meirihluta hreppsnefndar Gerðahrepps var samþykkt samhljóða á hreppsnefndarfundi í Garðinum nú síðdegis. Hreppsnefnd bendir á ályktun frá 63. fulltrúaráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var í Reykjavík 10. apríl sl. en þar var samþykkt eftirfarandi ályktun um sérstakt átak í sameinigu sveitarfélaga.

Ályktun um sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga
Fulltrúaráð Sambands íslenskra sveitarfélaga áréttar niðurstöður 62. fulltrúaráðsfundar sambandsins, frá 22. og 23. mars 2002, um stefnumörkun í byggðamálum og XVII. landsþings sambandsins, frá 25.-27. september 2002, um sveitarfélagaskipanina í landinu en í ályktunum fundanna segir m.a.:

Að markvisst skuli unnið að því á fyrri hluta þessa kjörtímabils að stækka sveitarfélögin með frjálsri sameiningu og við það miðað að þaunái a.m.k. yfir heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði. Náist þetta markmið ekki er lagt til að sambandið beiti sér fyrir því, í samvinnu viðríkisvaldið, að leitað verði annarra leiða til að það markmið náist fyrirlok kjörtímabilsins 2006.
Sambandið á að vinna að stækkun og eflingu sveitarfélaganna þannig að hvert sveitarfélag myndi heildstætt þjónustu- og atvinnusvæði og geti staðið undir lögbundinni þjónustu sinni.


Fulltrúaráðið bendir á að fyrir frumkvæði einstakra sveitarstjórna og íbúa sveitarfélaganna hefur náðst töluverður árangur í eflingu og stækkun sveitarfélaganna á síðasta áratug. Á hinn bóginn er ljóst að þær sameiningar sveitarfélaga sem orðið hafa á síðustu árum hafa í mörgum tilvikum ekki verið nægilega víðtækar til að ná því takmarki að sveitarfélögin myndi heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði, svo sem mögulegt er vegna landfræðilegra aðstæðna. Vegna fjölda sveitarfélaga í landinu er sveitarstjórnarstigið á Íslandi veikara en ella og umfang þess minna en í nálægum löndum. Til að öll sveitarfélög geti orðið öflugar stjórnsýslueiningar sem veita íbúunum víðtæka og góða þjónustu og til að auka raunverulegt staðbundið lýðræði er nauðsynlegt að þau eflist og stækki.
Fulltrúaráðið telur nauðsynlegt að sem fyrst verði hafin skipuleg og markviss vinna við undirbúning að framkvæmd á fyrri samþykktum fulltrúaráðsins og samþykkt síðasta landsþings sambandsins um eflingu og stækkun sveitarfélaganna. Ennfremur telur fulltrúaráðið óhjákvæmilegt að ríkið taki þátt í því verkefni, m.a. með vísan til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005.
Fulltrúaráðið leggur því eftirfarandi til:
1. Að loknum alþingiskosningum taki Samband íslenskra sveitarfélaga upp viðræður við nýja ríkisstjórnin um að hafin verði vinna við sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga í samræmi við stefnumörkun sambandsins og samþykkta þingsályktun um stefnu í byggðamálum og fjármögnun þess verkefnis.

2. Fyrir mitt þetta ár verði komið á fót undirbúningsstjórn um nýja sveitarfélagaskipan sem skipuð verði fulltrúum ríkis og sveitarfélaga, sem hafi eftirfarandi verkefni:
a) Að undirbúa gerð tillagna um breytta sveitarfélagaskipan með hliðsjón af sjónarmiðum hlutaðeigandi sveitarstjórna og landfræðilegra og félagslegra aðstæðna, þannig að hvert sveitarfélag myndi heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði.
b) Að leggja fram hugmyndir um hvaða verkefni hugsanlega verði færð frá ríki til sveitarfélaga í því augnamiði að treysta sveitarstjórnarstigið og efla sjálfsforræði byggðarlaganna. Haft verði að leiðarljósi að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði skýr og þeim tryggðir tekjustofnar til að standa undir öllum sínum lögskyldu verkefnum.
c) Að leggja tillögur sínar fyrir verkefnisstjórn um nýja sveitarfélagaskipan sem komið verði á fót samkvæmt nýjum lögum um sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga.

3. Að á haustþingi verði sett lög um sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga sem hafi tímabundið gildi. Í þeim verði kveðið á um stofnun sérstakrar verkefnisstjórnar ríkis og sveitarfélaga um nýja sveitarfélagaskipan. Þar verði jafnframt ákvæði um valdsvið, verkefni og verklag verkefnisstjórnar. Einnig að atkvæðagreiðsla um tillögu verkefnisstjórnar skuli fara fram í hlutaðeigandi sveitarfélögum og að meirihluti allra kosningabærra íbúa á því svæði sem tillaga verkefnisstjórnar tekur til ráði niðurstöðu atkvæðagreiðslu um tillögu að breyttri sveitarfélagaskipan. Á gildistíma þessara sérstöku laga er hugsanlegt að taka þurfi einstaka greinar sveitarstjórnarlaga tímabundið úr sambandi, s.s. 90. og 91. gr. Samhliða framkvæmd tillagna um sameiningu sveitarfélaga verði leitað leiða til að tryggja rétt sveitarstjórna til að hafna þátttöku í atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga á viðkomandi kjörsvæði.

4. Að tillögur verkefnisstjórnar um breytta sveitarfélagaskipan verði teknar til umfjöllunar í hlutaðeigandi sveitarstjórnum og í fulltrúaráði (eða á landsþingi) Sambands íslenskra sveitarfélaga í mars-apríl 2004. Að lokatillögur verkefnisstjórnar verði kynntar íbúum hlutaðeigandi sveitarfélaga og að atkvæðagreiðslur um þær fari alls staðar fram á sama tíma eigi síðar en 31. mars 2005.

Fulltrúaráðið leggur til að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna sameiningar sveitarfélaga eigi fyrst og fremst að miða við að sveitarfélög myndi heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði meðan sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga stendur yfir á árunum 2003 til 2005. Einnig er lagt til að fram fari heildarendurskoðun á öllu regluverki jöfnunarsjóðs, enda ljóst að fækkun og stækkun sveitarfélaga leiðir til grundvallarbreytinga á jöfnunaraðgerðum.
Fulltrúaráðið telur að það eigi að vera sameiginlegt markmið allra sveitarstjórnarmanna að efla sveitarstjórnarstigið og að sveitarstjórnir gegni þýðingamiklu hlutverki í framkvæmd þess sérstaka átaks sem þessi ályktun kveður á um.
Fulltrúaráðið leggur því til að hlutaðeigandi sveitarstjórnir taki tillögur verkefnisstjórnar um breytta sveitarfélagaskipan til umfjöllunar, hlutist til um kynningu og umræðu um þær meðal íbúanna í samráði við verkefnisstjórn og að greidd verði atkvæði um tillögurnar fyrir lok marsmánaðar 2005.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024