Garðmenn fá 35,9% tekna frá Jöfnunarsjóði
– tekjurnar einn milljarður og áttatíu milljónir króna.
Tekjur Sveitarfélagsins Garðs eru áætlaðar einn milljarður króna og áttatíu milljónum betur á næsta ári. 35,9% tekna sveitarfélagsins á næsta ári koma frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða 342,5 milljónir króna. Á fundi bæjarstjórnar Garðs þann 11. desember sl. fór fram síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015. Einnig var afgreidd rammaáætlun fyrir árin 2016-2018.
Í áætlun fyrir árið 2015 eru heildartekjur áætlaðar 1.079,9 mkr., þar af eru skatttekjur áætlaðar 599,8 mkr., eða 55,5% af heildartekjum. Framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru áætluð 342,5 mkr., eða 35,9% af heildartekjum. Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs A-Hluta fyrir fjármagnsliði er áætluð 25,9 mkr. í rekstrarafgang. Hins vegar er áætlaður rekstrarafgangur A-Hluta 24,9 mkr. eftir fjármagnsliði. Í samanteknum reikningsskilum (A+B hluta) er gert ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 25,3 mkr.
Heildareignir í samanteknum reikningsskilum A og B-hluta í árslok 2015 eru áætlaðar 2.953,3 mkr., þar af er áætlað að handbært fé og bankainnistæður verði 298,3 mkr. Heildar skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 444,2 mkr., þar af er lífeyrisskuldbinding 150,1 mkr. og leiguskuldbinding 117,3 mkir. Vaxtaberandi skuldir við lánastofnanir eru áætlaðar 64,2 mkr. í árslok 2015. Hlutfall heildarskulda og skuldbindinga af heildartekjum (skuldahlutfall) er áætlað 41,2%. Samkvæmt fjármálareglum sveitarstjórnarlaga má skuldahlutfall vera allt að 150%.
Veltufé frá rekstri í samanteknum reikningsskilum A og B hluta árið 2015 er áætlað 125,7 mkr., eða 11,7%. Afborganir langtímalána eru áætlaðar 6,7 mkr. Veltufé frá rekstri í fjögurra ára áætlun er áætlað samtals 583,7 mkr. á tímabilinu.
Handbært fé í árslok 2015 er áætlað 256,9 mkr. og er gert ráð fyrir að í fjögurra áætlun aukist handbært fé upp í 681,8 mkr. í árslok 2018. Í áætluninni er ekki gert ráð fyrir fjárfestingum í varanlegum rekstrarfjármunum, en bæjarstjórn mun taka frekari ákvarðanir um fjárfestingar síðar. Þess má geta að á árunum 2013 og 2014 eru fjárfestingar og framkvæmdir áætlaðar alls yfir 370 mkr., að fullu fjármagnað með eigin fé án lántaka.
Rekstrarniðurstaða fjárhagsáætlunar miðar að því að í árslok 2015 verði þeim áfanga náð að sveitarfélagið standist fjármálaregur sveitarstjórnarlaga, um jafnvægi tekna og gjalda. Það er einu ári fyrr en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.