Garðmenn deila út 300 tonna byggðakvóta
Sveitarfélagið Garður fékk á dögunum úthlutað byggðakvóta upp á 300 þorskígildistonn fyrir fiskveiðiárið 2013/2014. Bæjarstjórn Garðs hefur nú ákveðið hvernig þessum 300 tonnum verður skipt.
Lagt er til að 50% úthlutaðs byggðakvóta verði skipt jafnt milli þeirra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 665/2013 og lönduðu botnfiskafla á fiskveiðiárinu 2012/2013.
Þá verður 50% verði skipt hlutfallslega, til sömu skipa, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, á tímabilinu 1. september 2012 til 31. ágúst 2013.
Jafnframt er ítrekað að þar sem ekki er löndunarhöfn í Garði verði fullgilt að fiskiskip landi afla í öðru sveitarfélagi, en til vinnslu í Garði.
Með þessari tillögu munu fleiri fiskiskip fá úthlutað byggðakvóta en ef öllum byggðakvóta væri skipt hlutfallslega miðað við landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla. Þannig mun úthlutaður byggðakvóti til Garðs nýtast fleiri aðilum til atvinnusköpunar, sem er afar mikilvægt í ljósi þess hvernig atvinnuástand er í sveitarfélaginu, segir í tillögu bæjarstjórnar sem var samþykkt samhljóða á síðasta fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs.