Garðmenn áhugasamir um GeoPark
Bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs hefur óskað eftir frekari upplýsingum um GeoPark-verkefnið á Suðurnesjum. Bæjarráðinu þykir verkefnið áhugavert, en tölvupóstur frá bæjarstjóra Grindavíkur með upplýsingum um verkefnið var kynntur á síðasta fundi bæjarráðs Garðs. Afgreiðslu málsins var því frestað þar til frekari upplýsingar hafa fengist.
GeoPark verkefnið verður samstarfsverkefni sveitarfélaga á Suðurnesjum, Markaðsstofu Suðurnesja og fyrirtækja á svæðinu. Verkefnið hefur verið í vinnslu um nokkurn tíma. Stór hluti Reykjanesskagans verður GeoPark (Eldfjallagarður) þar sem atvinnulíf, náttúruvernd og orkuvinnsla fer fram í sátt hvað við annað. Það verður síðan UNESCO sem staðfestir svæðið sem GeoPark sem er alþjóðlegt nafn yfir slíka garða.
Sveitarfélagið Garður er hluti af Reykjanesi og því mikilvægt að sveitarfélagið verði með frá byrjun. Kostnaður vegna þátttökunnar og hlutur Garðs í þeim kostnaði verður ákveðinn þegar þær upplýsingar liggja fyrir.